segir Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar
Fyrirtækið er með gott fólk sem vinnur vel saman og leysir öll þau verkefni sem upp koma.
Síldarvinnslan hf. festi kaup á útgerðarfélaginu Bergi – Huginn í Vestmannaeyjum árið 2012 og vöktu þau kaup bæði umtal og athygli. Bergur – Huginn er rótgróið fyrirtæki en það var stofnað árið 1972. Seint á árinu 2020 festi Síldarvinnslan síðan kaup á útgerðarfélaginu Berg í gegnum Berg – Huginn. Skip þessara félaga eru tvö, systurskipin Vestmannaey og Bergur, og er útgerðarstjórn þeirra í Eyjum sameiginleg. Til að fræðast um starfsemi þessara félaga var Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, tekinn tali.
Bolfiskhlutinn efldur
Þegar Gunnþór er spurður að því hvers vegna Síldarvinnslan hafi fest kaup á Bergi – Huginn og síðar Berg er svarið skýrt og afdráttarlaust. “Síldarvinnslan festi kaup á félögunum í þeim tilgangi að styrkja bolfiskhluta fyrirtækisins og breikka þannig rekstrargrunninn. Á tímabili voru bolfiskheimildir Síldarvinnslunnar einungis 20% af heildinni en nú eru þær rúmlega 50%. Bergur – Huginn var sterkt og vel rekið félag og fjárfesting í því var verulega áhugaverð fyrir Síldarvinnsluna. Þegar Bergur var síðan keyptur var það eðlilegt skref til að styrkja bolfiskútgerðina frá Eyjum enn frekar.”
Viðbrögð við kaupunum á Berg – Huginn
Þegar Síldarvinnslan festi kaup á Berg – Huginn á sínum tíma brugðust ýmsir Eyjamenn við með neikvæðum hætti og óttuðust mjög afleiðingar kaupanna. Talið var að verið væri að flytja fyrirtækið frá Eyjum. Um þetta segir Gunnþór eftirfarandi: “Yfirlýsingar sumra þegar kaupin voru að eiga sér stað voru afar sérstakar, umræðan var býsna hörð og úrtöluraddir heyrðust. Bæjarfélaginu var beitt í málinu og vann gegn kaupunum. Ég held að menn þar hafi talið að þeir væru að vinna vinnuna sína. Ég held að þau 12 ár sem liðin eru frá kaupunum á Berg – Huginn hljóti að duga til að svara þeirri umræðu sem þarna átti sér stað. Staðreyndin er sú að Bergur – Huginn og Bergur hafa eflst mjög eftir að Síldarvinnslan kom að málum. Meira hefur verið veitt en áður, heimildir hafa bæst við, skipin hafa verið endurnýjuð og reksturinn hefur gengið vel. Staðreyndin er sú að við erum ekkert mikið að velta okkur upp úr umræðunni hverjum sinni. Við viljum frekar láta verkin tala. Ef menn vilja er hægt að rifja upp þá umræðu sem átti sér stað í tengslum við kaupin á Berg – Huginn og þá er hægt að dæma um það hvort hún hafi verið sanngjörn.”
Traustur rekstur og gott starfsfólk
Gunnþór var spurður að því hver staða Bergs – Hugins og Bergs væri nú og einnig var hann spurður um samstarfið við Eyjamenn. “Það lá fyrir þegar fest voru kaup á Berg – Huginn að þar var um að ræða vel rekið og afar traust fyrirtæki. Það var því í sjálfu sér ekki ástæða til að breyta miklu hvað reksturinn varðaði. Samstarfið við starfsfólk fyrirtækisins hefur verið mjög gott frá upphafi og starfsemin hefur gengið vel. Það útgerðarmunstur sem hér um ræðir hentar vel í Eyjum. Við höfum í reyndinni byggt á öllum þessum þáttum ásamt því að endurnýja skipin, auka kvótann og festa kaup á Berg til að efla og treysta starfsemina.”
Framtíðin
Þegar Gunnþór er spurður um framtíðina hvað varðar reksturinn í Eyjum leggur hann áherslu á að framtíðin líti vel út. “Við hjá Síldarvinnslunni teljum að útgerðin hér í Eyjum falli að framtíðarsýn fyrirtækisins. Vestmannaeyjar eru mikilvægur þáttur í bolfiskhluta Síldarvinnslusamstæðunnar og kaupin á Vísi í Grindavík voru liður í að efla þann hluta enn frekar. Það er stöðugt verið að leita leiða til að gera hlutina betur og finna út hvernig framtíð rekstrarins verði best háttað. Það er vissulega nokkur áskorun að vera með starfsemi í Eyjum; samgöngur geta verið erfiðar og stundum erfitt að flytja afla upp á land. En að sama skapi vinnur nálægðin við miðin með Eyjum og það skiptir ekki litlu máli. Þá er einnig hið öfluga starfsfólk í Eyjum mikilvægur þáttur. Það er áskorun fyrir Síldarvinnsluna að vera með starfsstöðvar dreifaðar um landið en fyrirtækið er með gott fólk sem vinnur vel saman og leysir öll þau verkefni sem upp koma. Það er ekki síst þetta fólk sem gerir Síldarvinnslusamstæðuna að sterkri heild þó að starfsemin sé víða.”
Mynd Óskar Pétur:
Bergur VE og Vestmannaey VE hafa rótfiskað karfa undanfarið.
Grein: Smári Geirsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst