Í byrjun ágúst fór Alma Guðnadóttir á alheimsskátamót í Englandi, en á þessu ári eru liðin 100.ár frá upphafi skátahreyfingar Baden Powel. Á þessu skátamóti voru um 40.000 skátar samankomnir þar af voru tvær stelpur frá eyjum, Alma og Bryndís Gísladóttir.
Eyjar.net sendi Ölmu nokkrar spurningar til að forvitnast örlítið um skátamótið.
Hver voru tildrög þess að þú fórst á alheimsskátamót í Englandi?
Ég ákvað að skrá mig eftir að ég hafði farið á Viðeyjarmót síðasta sumar og hitt alla krakkanna sem voru að fara og hvöttu mig til að koma líka.
Hver var fjöldi íslendinga á mótinu og í heild?
Það voru 430 íslendingar á mótinu auk þess u.þ.b. 30 til 40 íslendingar heimsóttu mótið meðan á því stóð, meðal annars Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit. Á mótinu voru tvær stelpur frá Faxa, ég og Bryndís Gísladóttir sem fór sem þátttakandi í heildina voru 40.000 skátar á mótinu
Hvert var starf þitt á skátamótinu?
Ég fór sem starfsmaður, og vann á pósti sem kynnti Íslensku jólasveinanna.
Hvernig fara svona stór skátamót fram?
Þau fara mikið til eins fram og íslensku skátamótin, krakkarnir fara í dagskrá á daginn og svo á kvöldin er misjafnt hvort það er kvöldvaka eða diskó. Nema bara mun stærri.
Mótið var sett 28 júlí og lauk þann 8 ágúst. Og er því heldur lengra en íslensku mótin. Hápunktur mótsins er 1 ágúst eða Sunriseday, þar sem allir á mótsvæðinu vakna kl 5 til þess að taka þátt í afmælisdegi skátahreyfingarinnar með morgun samveru, í ár voru 100 ár síðan fyrstu skátarnir fóru í útilegu á Brownsea í Englandi með Baden-Powell einnig var það mikil upplifun fyrir alla skáta að hlusta á barnabarn Baden-powell halda ræðu á þessum degi, mörg okkar höfðu ekki hugmynd um að afkomendur Baden-Powell væru á lífi. Í tilefni af því að 100 ár eru síðan fyrsta útilegan var fóru um 400 skátar eða 2 skátar frá hverju landi í útilegu á Brownsea í 3 daga og voru meðal annars yfir afmælisdaginn.
Einn stór munur er á erlendum mótum og þeim Íslensku og er það að Íslensku skátamótin eru þau einu sem leyfa ekki áfengi á starfsmannasvæði, og er alveg hægt að segja að sum kvöldin í starfsmannabúðunum hafi stundum líkst ágætis laugadagskvöldi á Íslandi.
Hversu lengi hefurðu verið í skátunum?
Ég byrjaði fyrst í skátunum þegar ég var 7 ára og var í ár, byrjaði svo aftur þegar ég var 10 ára og starfaði til 17 ára aldur þegar ég kláraði verkefni dróttskátastarfsins og fékk Forsetamerkið. Hef svo lítið starfað síðasta árið.
Góð saga frá Skátamótinu?
Humm… Ætli það sé ekki þegar ég lenti í því að Arabarnir sem voru með okkur í tjaldi með póstinn sinn heilsuðu öllum stelpunum nema mér, fannst þetta nú orðið heldur sérstakt og ákvað að spyrja þá hvernig á þessu stóð, kom þá í ljós að þeir máttu ekki tala við giftar konur og máttu ekki einu sinni heilsa mér vegna þess að ég var með trúlofunarhring.
eyjar.net þakkar Ölmu fyrir svörin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst