Á þessu ferðalagi fylgjumst við að
við eigum örlítinn vonarneista fyrir hvort annað
í ljósu mánaskini vel ég mér stund og segi
ég myndi klífa hæstu hæðir fyrir þig
ég væri ekkert án þín
Ég held að þessi texti úr þjóðhátíðarlaginu Lífið er yndislegt eigi vel við núna. Staða ÍBV í 1.deild er ekki góð og við stuðningsmenn ÍBV eru þekktir fyrir að gera kröfur á strákana sem standa vaktina í leikjunum. Það var mikið áfall að falla niður um deild síðasta sumar og strax var hafist handa við það að gera allt til að koma liðinu upp að ári. Eftir síðasta tap á heimavelli fyrir Leikni verður róðurinn þungur og því liggur á að fjölga mönnum við róðurinn.
Þjálfarinn
Knattspyrnuráð réð Heimi Hallgrímsson sem þjálfara eftir síðasta tímabil en hann hafði tekið við í lok síðasta tímabils tímabundið. Heimir er vel menntaður knattspyrnuþjálfari og dúxaði Heimir UEFA-A þjálfaraprófinu. Heimir og ÍBV gerðu þriggja ára samning og lagðar voru ákveðnar línur varðandi uppbyggingu ÍBV í framtíðinni. Heimir var lengi okkar albesti leikmaður og tel ég að það hafi verið hárrétt ákvörðun að ráða Heimi eftir síðasta tímabil. Þó að árangur ÍBV sé ekki ásættanlegur miðað við kröfur stuðningsmanna þá hafa sem betur fer ekki heyrst þær raddir að Heimi eigi að víkja. Ég skynja það að stuðningsmenn ÍBV standi þétt að baki Heimi.
Heimvöllurinn klikkar
Í mörg ár var Hásteinsvöllur okkar sterkasta vígi og voru fá lið sem náði sér í sigur á okkar heimavelli. En í sumar hefur árangurinn á heimavelli ekki verið góður. ÍBV hefur einungis sigrað í tveimur heimaleikjum, gert fjögur jafntefli og tapað tveimur. Það er ekki slæmt í sjálfu sér að tapa einungis tveimur heimaleikjum af átta en jafnteflin eru mörg þó að þau gefi eitt stig. En ef að skoðaður er árangur á útivelli þá hefur ÍBV náð þar í 16.stig af 24 mögulegum.
12 maðurinn
Stuðningsmenn ÍBV eru þekktir fyrir frábæran stuðning við okkar lið og núna þurfa strákarnir svo sannarlega á okkur að halda. Ég skora á alla stuðningsmenn ÍBV að standa vaktina með strákunum og nú sameinumst við og verðum 12 ÍBV leikmaðurinn á vellinum.
Vel má vera að í enda tímabils komumst við ekki upp í efstu deild og þá er það niðurstaða sem við verðum að kyngja. Á meðan leikmenn og þjálfari leggja sig alla fram þá eigum við stuðningsmenn ÍBV að gera sömu kröfu á okkur.
Áfram ÍBV svo á jörðu sem og á himni
Kjartan Vídó
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst