Auðvitað er bara til eitt Húkkaraball og það er í Eyjum. Ég man þegar ég spilaði í fyrsta skipti á Húkkaraballi. Þetta var árið 1982 með hljómsveit sem hét Tappi Tíkarrass. Þetta var nú dáldið undarleg ráðning þar sem við vorum ekki beinlínis ballhljómsveit.Við spiluðum eingöngu frumsamið efni og flest lögin voru óþekkt. Ég man að við náðum einu lagi á vinsældarlista í einhverjum útvarpsþætti á gömlu Gufunni sem var þá eina starfandi útvarpsstöðin hér á landi eins og elstu menn muna. Ég man að viðbrögð okkar við þessum óvæntu vinsældum voru þau að við hættum að spila lagið opinberlega um tíma eða spiluðum það í einhverri brenglaðri útgáfu. Við áttum okkur nokkurs konar aukasjálf sem var pönksveitin Vigga Viðutan. Sú sveit var skipuð meðlimum sveitarinnar fyrir utan Björk sem fékk hvíld rétt á meðan við hinir skiptumst á hljóðfærum og spiluðum nokkur frumsamin lög og ég söng. Þar á meðal var gjarnan þetta vinsæla lag, sem hét Ilty ebni, á efnisskránni. Þetta band kom einmitt fram é umræddu Húkkaraballi. Annars man ég ekki mikið eftir þessu nema að það átti að lemja mig þarna útí Eyjum. Ég var því dauðfeginn að komast lifandi heim daginn eftir.
Síðan þetta var hef ég margoft spilað í Eyjum bæði á Þjóðhátíð og almennum dansleikjum oftast með SSSÓL. Það er alltaf skemmtilegt og Vestmannaeyingar kunna svo sannarlega að skemmta sér. Þar er alltaf gaman að koma. Ég hef aldrei lent í útistöðum við neinn þarna eftir Tappaferðina enda Eyjamenn löngu hættir að berja aðkomumenn nema einn ónefndur hefur reyndar misst stjórn á hnefa en ég held að það hafi nú bara verið tæknileg mistök.
http://jakobsmagg.blog.is/blog/jakobsmagg/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst