Eftir því sem umræða um knattspyrnuhús í Vestmannaeyjum hefur dregist á langinn, og framkvæmdir í þá veru sömuleiðis, hef ég gert mér betur og betur í hugarlund áhrif þess að gera ekki neitt til lengri tíma. En það yljar mér meira og mér finnst mun skemmtilegra að velta fyrir mér, hvað ef menn nú bara drífa sig og reisa eitt slíkt ?
Að gera ekki neitt er ekki í anda þess sóknarhugar sem Eyjamenn hafa í gegnum tíðina staðið fyrir og hafa viljað standa fyrir, já og vonandi vilja enn. Eyjamenn hafa verið framsýnir, sýnt dugnað og djörfungarhug.
Ég trúi því að sá sóknarhugur sem maður hefur fundið fyrir hjá núverandi bæjarstjórn, á hinum ýmsu sviðum, muni verða til þess að hún muni verða bandamaður knattspyrnunnar áður en langt um lýkur þó verður að segjast að maður er orðinn langeygur eftir þeim viðburði. Merki ÍBV hefur oftar en ekki verið öflugur boðberi þess sóknarhugar sem ég vitna í og er ég þess fullviss að á velgengnistímum hafi velgengni félagsins, sérstaklega 1997 og 1998 á knattspyrnuvellinum, smitað jákvætt í allt bæjarlífið í Vestmannaeyjum.
Ég trúi því að menntaðir sálfræðingar myndu staðfesta þetta eftir litlar rannsóknir, jafnvel þótt þeir séu ekki starfandi sem slíkir. Líklega sjá þeir ljósið nú þegar og leita leiða til að gera það sem gera þarf til að efla íþróttastarfið hjá ÍBV. Tel ég brýnasta verkefnið nú, vera að byggja knattspyrnuhús til þess að við sýnum sóknarhuginn sem við viljum standa fyrir og að við ætlum að standa jafnfætis eða framar þeim félögum sem við viljum helst bara okkur saman við.
Það eru kappsmiklir krakkar hjá ÍBV og það skín af þeim hvar sem þeir koma og baráttuandinn alltaf til staðar. Maður verður alltaf stoltur af þeim al-hvítum á mótum þar sem maður rekst á þá. Þeir eiga svo mikið skilið.
Hvatning frá hálfu bæjarfélagsins alls gæti verið vítamínsprautan sem kemur þeim á toppinn. Þá á ég ekki bara við bæjarstjórn, heldur alla þá sem áhrif geta haft á framgang málsins og vil ég afþakka að húsið verði framar pólitískt bitbein. Þetta er hagsmunamál okkar allra ef grannt er skoðað og þakkarvert þeim sem gerir að veruleika.
Ég er þess sannfærður að við munum með tímanum eignast lið í fremstu röð með viðvarandi hætti ef úrbætur verði gerðar í vetraraðstöðu og þegar að er gáð, er fátt annað en knattspyrnuhús sem kemur til greina. “Boltinn” er hjá ráðamönnum og tel ég að þeir standi frammi fyrir mjög góðu tækifæri til að senda öllum Eyjamönnum góða “stungusendingu” inn í framtíðina með byggingu knattspyrnuhúss.
Áfram ÍBV !
Tjáðu þig um málefnið á http://www.eyjar.net/spjall/viewtopic.php?p=105#105
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst