Þá er skollin á okkur stormur. Það fór að hvessa hér á miðunum seinnipartinn í gær og þegar að Álsey tók trollið um sjö leitið í gærkvöld var komið hávaða rok. Það var svo ekkert kastað aftur og höldum við sjó eins og er. Það á svo að lægja með morgninum eða það lesum við úr veðurkortunum.
Við erum á fullu í vinnslunni og eigum eftir einn og hálfann tank núna klukkan þrjú um nótt. Það dugar alla næstu vakt en þá fer okkur að vanta hráefni, það er ekki alveg ákveðið hvor tekur næsta hol en það verður ákveðið þegar veðrið fer að ganga niður.
Við vorum komnir með nákvæmlega 688.477 kíló fryst á síðasta miðnætti eða 35.643 kassa og förum í 700 tonnin bráðlega. Þetta eru um 850 tonn þegar við erum fullir svo að þetta er að syngjast upp. Löndunin er komin á hreint, við eigum löndun kl. 0700 á föstudags morgun að staðartíma í Sortland á Lofot í Noregi.
Þessi túr er búinn að ganga ágætlega en við köstuðum trollinu fyrst aðfaranótt mánudagsins 17 sept. Við fórum frá Nes. á hádegi föstudaginn 14 sept og var stefnan þá tekin á Noregsmið, svo við erum búnir að vera 12 daga á sjó en 8 daga á veiðum. Miðað við að vera inni á föstudag þá endar þetta í hálfum mánuði.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst