Atli Heimisson framherji ÍBV er á leið til sænska 1.deildarliðsins Enköping á reynslu en þetta staðfesti hann við fótbolta.net í gær. Atli mun halda utan eftir viku eða sjötta október og vera hjá sænska liðinu í tíu daga.
Atli kom til ÍBV frá Aftureldingu í byrjun sumars og lék vel með Eyjamönnum í fyrstu deildinni en hann skoraði átta mörk í sautján leikjum þar sem og þrjú mörk í jafnmörkum leikjum í VÍSA-bikarnum.
Þessi tvítugi leikmaður var í fyrra valinn efnilegasti leikmaðurinn í annarri deild karla í vali fyrirliða og þjálfara.
Enköping er í núunda sæti í sænsku 1.deildinni með 31 stig eftir 25 leiki. Þrír þjálfarar stýra liðinu en þeirra á meðal er Jesper Blomquist fyrrum leikmaður Manchester United.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst