Íslendingaslagur Portsmouth og Reading í ensku úrvalsdeildinni í dag var ævintýri líkastur en alls voru skoruð 11 mörk í leiknum. Það voru heimamenn sem fögnuðu sigri 7-4.
Framherjinn skæði Benjani skoraði þrennu í leiknum en tvö mörk frá honum virtust hafa komið heimamönnum algjörlega í bílstjórasætið í leiknum. Stephen Hunt minnkaði muninn fyrir Reading og markvörðurinn David James gaf svo Dave Kitson jöfnunarmarkið á silfurfati með glórulausum mistökum í marki Portsmouth.
Þá var komið að Hermanni Hreiðarssyni sem kom Portsmouth í 3-2 og skömmu síðar bætti James fyrir mistök sín me því að verja vítaspyrnu frá Nicky Shorey. Benjani jók svo forystu Portsmouth í 4-2 og þeir Niko Kranjcar, Sean Davis og Sulley Muntari innsigluðu þennan ótrúlega sigur. Reading gaf sig þó aldrei og þeir Shane Long og Shorey náðu að klóra í bakkann.
Brynjar Björn Gunnarsson fékk ekki góða dómar fyrir frammistöðu sína í leiknum og afdrifarík mistök frá honum áttu þátt í tveimur mörkum heimamanna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst