Björn Valur Gíslason, varþingmaður VG, segir að brögð séu að því að sjómenn af erlendum uppruna njóti ekki sömu kjara og réttinda og aðrir sjómenn. Hann tók málið upp utan dagskrár á Alþingi í gær og kallaði umboðsmenn erlendra verkamanna þrælahaldara samtímans. Björn Valur segir í samtali við dv.is að hann hafi fengið ábendingar um að umboðsmenn erlendra verkamanna hafi komið að skipshlið og boðið starfskrafta. Dæmi væru þess að þeir hefðu verið ráðnir á föstum launum en ekki hlut og nytu engra réttinda.
Björn Valur telur að freistingin að ráða menn með áðurgreindum hætti fari vaxandi með minnkandi aflaheimildum. Hann vill ekki nefna einstök dæmi en kveðst hafa fengið fleiri en eina ábendingu rétt eins og aðrir þingmenn. Hann segist hafa fengið sterk viðbrögð við ummælum sínum á þingi, bæði þeirra sem kunni fleiri dæmi um áðurgreind ráðningarkjör og meðferð á erlendum sjómönnum en einnig hinna sem krefjist þess að hann nefni dæmi máli sínu til staðfestingar.
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í gær að það væri miður ef sú væri raunin að menn nytu ekki allra réttinda, en benti á hlutverk verkalýðsfélaga í þessu efni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst