Eyjólfur Sverrisson hefur notað níu varnarmenn í undankeppni EM og gengur misvel eftir því hverjir spila. Íslenska landsliðið þarf að endurskipuleggja varnarleikinn eftir útreiðina gegn Lettum á laugardag.
Landsliðsþjálfarinn Eyjólfur Sverrisson á ás upp í erminni fyrir leikinn á móti Liechtenstein annað kvöld.
Vörn íslenska landsliðsins í knattspyrnu er nefnilega sterkust með Hermann Hreiðarsson. Þetta hafa margir haldið fram og sannast þegar tölfræði íslenska landsliðsins í undankeppni EM er skoðuð. Eyjólfur Sverrisson hefur notað níu varnarmenn í tíu leikjum íslenska liðsins í undankeppninni og það líður lengst á milli marka mótherja liðsins þegar Hermann Hreiðarsson er í öftustu línunni, Hermann hefur misst af tveimur af síðustu fjórum landsleikjum og í báðum hefur íslenska liðið fengið á sig fjögur mörk eða fleiri. Hermann tók út leikbann í leiknum á móti Lettum á laugardaginn en verður sem betur fer klár í slaginn gegn Liechtenstein á morgun.
Kristján Örn Sigurðsson er í öðru sæti rétt á eftir Hermanni en bæði hann og Ragnar Sigurðsson voru ofar en Hermann fyrir Lettaleikinn um síðustu helgi. Íslenska liðið hafði sem dæmi fyrir leikinn um helgina aðeins fengið á sig 2 mörk þær 180 mínútur sem Ragnar hafði spilað og íslenska vörnin hafði ennfremur “aðeins” fengið á sig 6 mörk þá 451 mínútu sem Kristján hafði spilað.
Ívar Ingimarsson er eini varnarmaður íslenska liðsins sem hefur spilað allar 900 mínúturnar til þessa í undankeppninni en hann er í fimmta sæti á listanum.
Íslenska vörnin gekk mjög vel í leikjunum á móti Spáni og Norður-Írlandi og því má búast við að þeir Kristján Örn, Ragnar og Hermann spili við hlið Ívars í leiknum í Ölpunum annað kvöld.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst