Á fundi bæjarstjórn Vestmannaeyja í gærkvöldi lögðu leiðtogar minni- og meirihluta þeir Páll Scheving og Elliði Vignisson fram sameiginlega ályktun um málefni Sparisjóðs Vestmannaeyja. Er þessi tillaga sett fram í ljósi þeirrar umræðu og breytinga sem ákveðnar voru á stofnfjáreigendafundi Sparisjóðs Vestmannaeyja.
Í ályktun bæjarstórnar segir m.a. “Jafnframt beinir bæjarstjórn þeim eindregnu tilmælum til stjórnar og stofnfjáreigenda að einskis verði látið ófreistað við að tryggja sem best til framtíðar stöðu Sparisjóðs Vestmannaeyja, viðskiptamanna sjóðsins og þeirra gríðarlegu hagsmuna sem felast í öflugum samfélagssjóði.”
Ályktunina má lesa hér:
Ályktun bæjarstjórnar:
Bæjarstjórn Vestmannaeyja leggur ríka áherslu á mikilvægi starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja fyrir samfélagið í Eyjum. Á undanförnum árum hefur sparisjóðurinn vaxið sem fjármálastofnun og nær nú starfssvæðið frá Hveragerði í vestri til Breiðdalsvíkur í austri, með öflugar aðalstöðvar í Vestmannaeyjum.
Á sama tíma hefur varasjóður sparisjóðsins vaxið í takt við góðan árangur í rekstri og nú myndar nær allt eigið fé hans. Nýlega hefur verið samþykkt að margfalda stofnfé í sjóðnum á næstu misserum til þess að efla stöðu hans. Á sama tíma auglýsa fjárfestar í fjölmiðlum eftir komast yfir stofnfjárbréf í Sparisjóðnum og eru sagðir bjóða margfalt verð fyrir stofnfjárhluta til þess eins að hafa áhrif á stöðu varasjóðsins.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja heitir á stjórn og stofnfjáreigendur í Sparisjóðnum að standa saman og minnir jafnframt á að þeir eru trúnaðarmenn sjóðsins og hefur svo verið allt frá stofnun. Jafnframt beinir bæjarstjórn þeim eindregnu tilmælum til stjórnar og stofnfjáreigenda að einskis verði látið ófreistað við að tryggja sem best til framtíðar stöðu Sparisjóðs Vestmannaeyja, viðskiptamanna sjóðsins og þeirra gríðarlegu hagsmuna sem felast í öflugum samfélagssjóði.
“Við Páll Scheving sem erum oddvitar V og D lista höfum fundað með fulltrúum Vestmannaeyjabæjar í stjórn Sparisjóðsins þeim Ragnari Óskarssyni og Arnari Sigurmundssyni. Á þeim fundi hétum við á þá að standa saman hér eftir sem hingað til að gæta hagsmuna Sparisjóðsins og Vestmannaeyjabæjar. Jafnframt beindum við þeim eindregnu tilmælum til þeirra sem og annarra í stjórn Sparisjóðsins og stofnfjáreigenda almennt að einskis verði látið ófreistað við að tryggja sem best til framtíðar stöðu samfélags okkar Eyjamanna, Sparisjóðs Vestmannaeyja, viðskiptamanna sjóðsins og þeirra gríðarlegu hagsmuna sem felast í öflugum samfélagssjóði. Sparisjóður Vestmannaeyja hefur frá upphafi gengt mikilvægu samfélagslegu hlutverki.”
“Ég hef áður gert orð Þorsteinns Þ. Víglundssonar að mínum og ég geri það enn en hann sagði:
“„Efling Sparisjóðsins er efling einstaklingsins í Vestmannaeyjum til mannsæmandi lífs. Barátta Sparisjóðsins fyrir bættum kjörum Eyjabúa er um leið eins konar sjálfstæðisbarátta þeirra, losar þá undan fjárhagslegu áhrifavaldi annars staðar frá. Þar er þeirra eigið fé, þeirra eigið afl, til þeirra hluta sem gera skal og nauðsyn krefst, að framkvæmdir verði, ef Eyjabúum skal farnast vel.” Ég trúi því og treysti að stofnfjáreigendur hafi þetta að leiðarljósi við það að rækta hlutverk sitt sem trúnaðarmenn sjóðsins”
“Með þetta í huga ákváðum við að leggja eftirfarandi ályktun fram á fundi bæjarstjórnar í kvöld” sagði Elliði Vignisson í samtali við www.eyjar.net
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst