Þá hef ég lokið bloggorlofi og hyggst taka upp bloggið að nýju. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst hávær krafa Eyjamanna um aukið aðgengi að upplýsingum, straumum og stefnu hvað Vestmannaeyjabæ varðar.
Nú nýverið skoraði vinur minn Maggi Braga á mig að taka upp bloggið að nýju og Hanna Birna vinkona mín í suðurgarði tók undir með því að segja “Halelúja” og þar með höfðu þau í raun tekið ákvörðun fyrir mig.
Hér kemur svo fyrsti pistill:
Eðlilega eru í skiptar skoðanir um það hvort nýr Herjólfur sem siglir í Bakkafjöru sé gæfu spor fyrir okkur. Sjálfur hef ég ekki farið í grafgötur með þá skoðun mína að ef frátafir verða sambærilegar við það sem í dag er í siglingum til Þorlákshafnar, og verði og þjónustu verði hagað í samræmi við það að hér er um þjóðvega að ræða, þá komi þetta til með að valda straumhvörfum.
Nú er hinsvegar öllum ljóst að stefnan er tekin á siglingar beint yfir á suðurlandið og nú verður okkur að bera gæfa til að sameinast í kröfugerð til að tryggja að siglingar í Bakkafjöru skili því sem til er ætlast.
Þannig hef ég lýst þeirri skoðun minni að ferðatíðni eigi ekki einungis að taka mið af álaginu á skipið heldur í takt við yfirlýstan vilja stjórnvalda um að stórefla samgöngur milli lands og Eyja. Hér er um að ræða þjóðveg. Þjónustustig og gjaldtaka á að taka mið af því og engu öðru.
Það er algerlega út úr kortinu að telja bílana sem nú fara um, reikna með einhverri fjölgun og miða ferðatíðni við það hvað skipið þarf að fara margar ferðir til að anna slíkri eftirspurn. Hugmyndin á bak við siglingar um Bakkafjöru er ekki síst að stækka atvinnusvæði og efla tengsl svæða. Það gerist eingöngu með því að ferðir séu það hagstæðar og það tíðar að nánast sé með tveggja tíma millibili hægt að komast til og frá Eyjum.
Í dag er staðan sú að Ferjan er í siglingum í 14 tíma á sólarhring, alla daga vikunnar. Datt virkilega einhverjum í hug að við myndum láta nýja ferju sigla í færri tíma?
Við viljum miða við að ferjan sigli fyrstu ferð ekki seinna en kl. 07 á morgnanna og ljúki seinustu ferð um kl. 23.00. Það gerir 16 tíma (einungis tveimur tímum meira en nú er) . Í bæklingum kemur skýrt fram að það taki um 2 tíma að ljúka hringnum. 16 tímar til ráðstöfunar deilt í þá 2 tíma sem það tekur að sigla fram og til baka gera 8 ferðir. Í mínum huga er ljóst að krafan verður sú.
Í viðbót við þetta bætist svo umræða um verðlagningu, kojur, þjónusta við fatlaða, rekstur á Bakkahöfn, þjónusta um borð og svo margt fleira.
Ef vel verður að verki staðið og ríkið stendur við þá yfirlýsingu að þeir vilji stórefla samgöngur milli lands og Eyja þá á þetta eftir að gerbylta samgöngum milli lands og Eyja.
ps. Myndin hér að neðan er tekin í Bakkafjöru og sýnir árangur af uppgræðslu sumarsins. Myndin sýnir reyndar vel það sem ég hef verið að strýða henni Unni Brá vinkonu minni og sveitarstýru á Hvolsvelli með, að það eina sem þau hafa umfram okkur er fallegra útsýni til suðurs.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst