Samkeppni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við sambærileg fyrirtæki frá stærri löndum fer fram á ójöfnum forsendum, þar sem sjávarútvegi er víða í mun fjölmennari ríkjum en Íslandi haldið uppi með greiðslum frá skattborgurum. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra á sjávarútvegsráðstefnu í Álaborg í Danmörku á þriðjudag.
Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, tók undir orð ráðherrans og sagði að 12 prósent þak á heildareign fyrirtækja á kvóta væri verulega hamlandi fyrir íslensk fyrirtæki í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem flest íslensk sjávarútvegsfyrirtæki standa frammi fyrir. „Rekstrarumhverfi sjávarútvegs á Íslandi er erfitt. Það eru mun meiri hömlur á sjávarútvegi en á öðrum atvinnugreinum. Ég tel að þetta muni breytast og að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins muni smám saman verða eins og gengur í öðrum greinum,” sagði Eggert.
Á ráðstefnunni kom fram gagnkvæmur áhugi þátttakenda á nánara samstarfi Íslands og Danmerkur í sjávarútvegi. Ráðstefnan nú var vel sótt og tóku fulltrúar frá Danmörku, Íslandi, Noregi, Grænlandi og Færeyjum þátt. Það voru íslenska sendiráðið í Danmörku, Glitnir, Dansk-íslenska viðskiptaráðið og Danfish sem stóðu að ráðstefnunni. – shá
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst