Síðustu vikur, mánuði og jafnvel ár hefur verið mikið rætt um þann samgönguvanda sem plagar þá sem búa í Vestmannaeyjum og þá sem vilja komast til Vestmannaeyja hverju sinni. Ríkisstjórn landsins hefur ákveðið að farið verði í framkvæmdir við Bakkafjöru og siglt verður á milli Bakka og Eyja í náinni framtíð en sú framtíð hefst ekki strax.
Sú ákvörðun er skref í rétta átt að bæta þann vanda sem er uppi í dag en gallinn er að vandamálið leysist ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2011.
Ekki er byrjað að hanna skipið sem á að sigla á milli Bakka og Eyja og við erum að nálgast árið 2008. Þegar búið er að hanna ferjuna nýju þá þarf að bjóða verkið út og hefja framkvæmdir. Það sjá það allir að siglingar á milli Bakka og Vestmannaeyja hefjast í fyrsta lagi árið 2011.
Ég trúi því ekki að samfélagið ætli að sætta sig við núverandi ástand þar til að Bakkafjara og ný ferja verða komin í gagnið. Samfélagið tapar miklum fjármunum á hverju ári á þessum samgönguvanda. Ferðaþjónustuaðilar tapa, Vestmannaeyjabær tapar og samfélagið allt tapar peningum en ég hef ekki heyrt neinn vill taka á þessum vanda sem mun steðja að næstu 3-4 árin.
Nýverið var gerður samningur við Flugfélag Íslands um auknar flugsamgöngu milli lands og eyja og er það svo sannarlega skref í rétta átt. En vandamálið er stærð Herjólfs og siglingatími hans milli lands og eyja.
Á næsta ári eru 35 ár frá goslokum, 45 frá Surtseyjargosinu, Golfklúbbur Vestmannaeyja 80 ára og þjóðhátíðin verður á sínum stað. Vandamálið mun klárlega bitna á þessum viðburðum ef ekkert verður að gert.
Nú skora ég að bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar, þingmenn kjördæmisins og ráðherra suðurkjördæmis að byrja að vinna í því að finna einhverja lausn sem leysir vandamáls dagsins í dag.
Kjartan Vídó
ritstjóri eyjar.net
Segðu okkur þína skoðun á www.eyjar.net/spjall
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst