ÍBV fagnaði sínum fyrsta sigri á leiktíðinni í dag í N1-deildinni í handknattleik karla með því að leggja Aftureldingu, 24:23, á heimavelli í Vestmannaeyjum. Mosfellingar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 13:9 en heimamenn náðu að snúa leiknum sér í hag í síðari hálfleik.
Það var þungu fargi létt af leikmönnum ÍBV í leikslok í leik gegn Aftureldingu í dag. Eftir tíu tapleiki í röð náðu þeir loks að innbyrða sigur. Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar en þegar rúmar tíu mínútur voru búnar kom góður kafli gestanna þar sem þeir skoruðu sex mörk í röð og breyttu stöðunni úr 4:4 í 4:10. Davíð Svansson markvörður Mosfellinga fór á kostum á þessum kafla.
Eyjamenn náðu ekki að svara fyrr en fimmtán mínútum síðar en náðu góðum leikkafla á lokamínútum hálfleiksins og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk fyrir leikhlé. Hlutverk liðanna breyttist heldur betur í síðari hálfleik, á meðan Eyjamenn börðust eins og ljón með Zilvihnas Grieze fremstan í flokki datt spil gestanna algjörlega niður. Eyjamenn jöfnuðu leikinn um miðbik hálfleiksins og héldu áfram að bæta leik sinn, náðu þriggja marka forystu, 23:20 þegar sjö mínútur voru eftir. Þá vöknuðu gestirnir aftur, minnkuðu muninn niður í eitt mark, 23:22 og enn fimm mínútur eftir.
En Eyjamenn héldu út, náðu aftur tveggja marka forystu en Mosfellingar minnkuðu muninn aftur þegar tíu sekúndur voru eftir en lengra komust þeir ekki, Eyjamenn héldu boltanum út leiktímann og fögnuðu innilega langþráðum sigri.
ÍBV tefldi fram nýjum leikmanni, Sergey Trotsenko sem kom til Eyja seint á föstudagskvöld eftir langt ferðalag frá heimalandi sínu, Úkraníu. Hann kom sterkur inn í liðið og þrátt fyrir að ná ekki einni æfingu með liðinu var hann lykilmaður í sigrinum, skoraði átta mörk. Zilvinas fór á kostum í síðari hálfleik og skoraði mörk í öllum regnbogans litum. Eyjamenn höfðu baráttuna sín megin í leiknum og sýndu oft á tíðum góð tilþrif, þá sérstaklega varnarlega.
Frábær markvarsla Davíðs Svanssonar, sérstaklega í fyrri hálfleik stóð upp úr í liði Aftureldingar. Liðið var í góðri stöðu í hálfleik en slakar sendingar og slappur varnarleikur varð liðinu að falli í þeim síðari. Eyjamenn sitja þó enn sem fastast í neðsta sæti deildarinnar, þremur stigum fyrir neðan Aftureldingu.
Spiluðum sem einstaklingar
Bjarki Sigurðsson þjálfari Aftureldingar var niðurlútur í leikslok. „Við erum að tapa þessum leik á okkar eigin klaufaskap. Við héldum vel varnarlega í fyrri hálfleik en í þeim síðari lak allt inn sem kom á markið. Við vorum bara að spila þetta illa, það verður að segjast eins og er. Við getum sjálfum okkur um kennt hvernig fór. Vestmannaeyingar spiluðu með hjartanu og þetta var verðskuldað hjá þeim.” Afturelding hefði með sigri náð þriggja stiga forskoti á Akureyri í botnbaráttunni. „Við erum að vinna og gera jafntefli við toppliðin en töpum svo fyrir botnliðinu. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni fyrir leikmennina mína. Við spiluðum ekki sem liðsheild, heldur sem einstaklingar og því fór sem fór.”
Svarti kaflinn vonandi að baki
Gintaras Savukynas þjálfari ÍBV var eðlilega ánægður með fyrstu stig vetrarins. „Við byrjuðum leikinn illa en strákarnir héldu áfram og sýndu mikinn karakter með því að komast aftur inn í leikinn og við náðum að halda þetta út og landa sigri. Fyrstu stigin okkar komin í hús og ég er mjög ánægður.” Sergey Trotsenko nýja örvhenta skytta Eyjamanna átti stóran þátt í sigrinum. Frammistaða hans kom Gintaras ekki á óvart. „Nei, ég er ekkert hissa á því. Hann er þrítugur leikmaður með mikla reynslu sem styrkir lið okkar mikið. Hann kom seint í gærkvöldi og náði ekki æfingu með liðinu en hann sýndi hvað hann getur. Nú vona ég bara að svarti kaflinn sé búinn hjá okkur og leiðin liggi upp á við.”
Trotsenko kom til Eyja í fyrsta sinn í gærkvöldi eftir eftirminnilega sjóferð með Herjólfi og var hann ekki með neinn farangur með sér – en farangur hans týndist á leið hans frá meginlandi Evrópu. Sigurður Bragason fyrirliði ÍBV lék ekki með liðinu en hann er í leikbanni og verður hann einnig í banni í næsta leik ÍBV.
Mörk ÍBV: Sergey Trotsenko 8, Zilvinas Grieze 7, Sindri Haraldsson 4, Grétar Þór Eyþórsson 4/1, Leifur Jóhannesson 1.
Varin skot: Friðrik Sigmarsson 17 (þar af 2 aftur til mótherja) Brottvísanir: 8 mínútur,
Mörk Aftureldingar: Hilmar Stefánsson 6/2, Daníel Jónsson 5, Reynir Árnason 4, Haukur Sigurvinsson 3, Magnús Einarsson 2, Ásgeir Jónsson 1, Jón Andri Helgason 1, Bjarki Sigurðsson 1.
Varin skot: Davíð Svansson 25 (þar af 8 aftur til mótherja).
Brottvísanir: 4 mínútur.
Áhorfendur: 100,
Dómarar: Gísli Hlynur Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.
Gangur leiksins: 1:0, 2:2, 4:4, 4:10, 7:10, 8:12, 9:13, 10:14, 13:14, 15:17, 17:17, 20:20, 23:20, 23:22, 24:23.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst