Það var öllu meira að gera hjá lögreglu í vikunni sem leið en á undanförnum tveimur vikum og ýmis mál sem komu upp. M.a. þurfti lögreglan að skakka leikinn á milli manna sem voru að takast á fyrir utan öldurhús bæjarins.
Tveir fengu að gista fangageymslu lögreglu um helgina, annar vegna ölvunar og óspekta en hinn vegna gruns um ölvun við akstur.
Um kl. 15:30 þann 22. nóvember sl. var lögreglu tilkynnt um bruna í Tangahúsinu. Töluverður reykur barst frá suð-austur enda hússins og logaði upp úr þaki hússins. Slökkvistarf gekk mjög vel og var lokið á skömmum tíma. Við rannsókn málsins kom í ljós að nokkur ungmenni höfðu verið þarna inni að fikta með eld og eru sterkar líkur á því að eldurinn hafi kviknað út frá glóð.
Ein eignapjöll voru tilkynnt til lögreglunnar í vikunni sem leið en um er að ræða rúðubrot í bifreið sem stóð við Kirkjuveg 20. Hafði afturrúða bifreiðarinnar verið brotin. Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hver þarna var á ferð beðnir um að hafa samband við lögreglu.
Eitt fíkniefnamál kom upp um helgina en við leit lögreglu í bifreið fannst u.þ.b. 2,5 gr. af hassi. Málið telst að mestu upplýst.
Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og eru þá komin alls 19 ölvunarakstursmál á árinu. Á sama tíma í fyrra höfðu 13 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur og er því um nokkra fjölgun að ræða í þessum málaflokki sem vekur nokkra vonbrigði með að ökumenn skulu ekki vera skynsamari en þetta. Hins vegar er það jákvætt að lögreglan skuli þó ná að stöðva þessa ökumenn, því eins og marg oft hefur verið bent á valda ökumenn sem eru undir áhrifum áfengis, eða annarra vímuefna, alvarlegum slysum í umferðinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst