Miðjumaðurinn knái Ian Jeffs mun ekki leika aftur með ÍBV næsta sumar. Jeffs á eitt ár eftir af samningi sínum við sænska félagið Örebro en þrátt fyrir það lítur út fyrir að hann spili hér á landi næsta sumar og þá í Landsbankadeildinni.
Jeffs gekk til liðs við ÍBV um mitt sumar og lék síðari hluta tímabilsins með liðinu í fyrstu deildinni. Hann lék frábærlega, skoraði níu mörk í ellefu leikjum og var valinn í lið ársins í vali fyrirliða og þjálfara í vali sem Fótbolti.net stóð fyrir. ,,Við buðum honum samning en ég held að hann vilji spili í efstu deild sem er skiljanlegt. Við ráðum ekki við það sem að lið á höfuðborgarsvæðinu eru að bjóða. Hann ætlar að leita á önnur mið og við viljum þakka honum kærlega fyrir sitt framlag og óskum honum góðs gengis á nýjum miðum,” sagði Huginn Helgason í knattspyrnuráði ÍBV við Fótbolta.net í dag.
Jeffs sem er 25 ára Englendingur lék með ÍBV 2003, 2004 og 2005 eftir að hafa verið á mála hjá Crewe Alexandra í heimalandinu.
Hann gekk til liðs við Örebro eftir tímabilið 2005 og hjálpaði sænska liðinu að komast upp í efstu deild. Jeffs fékk fá tækifæri hjá liðinu á þessu ári og gekk þá til liðs við ÍBV á lánssamningi út tímabilið.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst