Andri Hugo flutti nýverið til Amsterdam ásamt þremur öðrum peyjum úr eyjum og eru þeir að læra hljóðverkfræði þar ytra. www.eyjar.net sendu nokkrar spurningar á Andra til að fræðast um námið og lítið í Amsterdam.
Svö Andra má finna hér að neðan:
Nú fluttur þú nýverið til Amsterdam til að hefja nám. Hvað var til þess að þú fluttir út og hvað ertu að læra?
Ég er að læra svokallaða hljóðverkfræði (Audio Engineering á ensku), en ég kalla þetta yfirleitt bara hljóð- og upptökufræði á íslensku. Ég er búinn að ætla mér að fara út í þetta ævintýri síðan ég útskrifaðist úr Margmiðlunarskólanum á sínum tíma, fyrir rúmum 5 árum síðan. Þegar ég var í námi þar tókum við stuttan kúrs í hljóðvinnslu og fannst mér það einna áhugaverðast af því námsefni sem þar var kennt. Kennarinn sem kenndi mér hljóðvinnsluna hafði lært sitt fag hjá SAE Institute í London og var stefnan hjá mér upphaflega sett þangað. SAE námsstofnunin er með útibú á 48 stöðum í heiminum, þannig að London var svo sem ekkert endilega eini staðurinn sem kom til greina. Á tímabili var hugmyndin hjá mér að fara til Glasgow í Skotlandi, en það varð undir því þeir bjóða ekki upp á BA gráðuna eins og þeir gera í London og Amsterdam.
Síðan frétti ég að vinnufélagi minn, Viktor Smári Kristjánsson, var ákveðinn að fara í þetta nám í Amsterdam með Andra Eyvindssyni, félaga sínum. Þeir voru mjög spenntir fyrir þessu námi og þar sem Andri Eyvinds hafði búið í Amsterdam sem krakki þótti þeim tilvalið að sækja þetta nám á heimaslóðir hans. Ég ákvað síðan að skella mér með þeim, enda betra að vera 3 í þessu ævintýri heldur en einn.
Svo er Kári Yngvason hérna með okkur líka. Hann er í sama skóla en á annarri braut, vef- hönnunar og forritunarbraut. Við búum allir fjórir saman og leigjum saman þriggja hæða hús í norður hluta Amsterdam.
Sérðu mörg tækifæri í framtíðinni í þessari atvinnugrein?
Þetta nám getur nýst manni á ótal marga vegu. Aðaláhersla er lögð á hljóðupptöku og tónlistarupptöku, en námið nýtist manni í raun á hvaða sviði hljóðvinnslu sem er, hvort sem það er í fjölmiðlum, upptökuverum, leikhúsum, kvikmyndagerð eða hvar sem er þar fram eftir götunum. Þannig að ef ég held rétt á spilunum þá ættu mér að standast ýmsir möguleikar í boði að námi loknu.
Er möguleiki á því að þú farir aftur til eyja með þessa atvinnu?
Ef möguleikinn stendur mér fyrir höndum að flytja aftur heim til Eyja að námi loknu og vinna þar á þessu sviði, þá myndi ég alvarlega skoða það. Eins og staðan er hjá mér í dag þá sé ég ekki fyrir mér að ég búi erlendis mikið lengur en námið heldur mér hérna, þannig að leið mín liggur mjög sennilega aftur heim til Íslands þegar þessu lýkur. Og það væri auðvitað draumur einn að geta komið sér fyrir heima í Eyjum og unnið á þessu sviði þar. Þar er að rísa stúdíó þessa dagana og verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Annars er alveg hægt að skapa sér eitthvað sjálfur ef til þess kemur en tíminn og tækifærin sem gefast verða að leiða það í ljós hvar maður endar að námi loknu.
Í hverju felst námið þitt helst?
Við erum reyndar bara nýbyrjaðir í hljóðvinnslunáminu fyrir alvöru núna, erum komnir á þriðju viku. Á undan því fóru þrír mánuðir í almenna margmiðlunarfræði þar sem farið var yfir öll helstu svið margmiðlunarinnar, allt frá prentmiðlum upp í þrívíddarhönnun og allt þar á milli. En hljóðnámið sjálft byrjar mjög skemmtilega. Þar erum við búin að vera læra hina eiginlegu hljóðfræði, eðlisfræðina bak við hljóðið og þar fram eftir götunum. Eftir það fer námið svo meira út í verklegu hliðina, við förum að færa okkur meira og meira inn í stúdíóin, lærum á helstu upptökuforritin, lærum hvernig á að stilla upp í stúdíóinu fyrir upptökur og lærum á öll þau fjölmörgu tæki og tól sem fylgja alvöru hljóðveri. Í skólanum eru 4 fullbúin stúdíó, búin öllum helstu “top-of-the-line” græjum sem völ er á og öll aðstaða er alveg til fyrirmyndar. Þegar lengra dregur á námið er okkur svo ætlað að fá hljómsveitir inn í hljóðverin og taka þær upp, þannig að við fáum líka mjög gagnlega og dýrmæta reynslu samhliða náminu.
Nú ertu fluttur í stórborg, eru mikil viðbrigði að fara úr 4000 manna samfélagi í stórborg?
Já og nei. Ég held að þetta væri auðvitað allt öðruvísi ef ég væri einn hérna. En við erum fjórir hérna saman, þannig að við finnum ekkert allt of mikið fyrir því að við séum fluttir í allt annan menningarheim, ekki á meðan við getum stutt okkur hver við annan og finnum fyrir nærveru heimafólks á hverjum degi. Fyrir utan okkur eru síðan fjölmargir Íslendingar með okkur í skólanum. Í bekknum okkar eru t.d. 23 skráðir nemendur og af þeim eru 7 Íslendingar. Það er næstum því þriðjungur! Og fyrir utan bekkinn okkar eru allavega 5-6 Íslendingar í skólanum til viðbótar. Fólk í skólanum er farið að tala um “íslensku innrásina”!
En að sjálfsögðu finnur maður fyrir því að maður er ekki lengur á lítilli 4000 manna eyju. Í Amsterdam búa 740.000 manns, svo maður finnur alltaf fyrir nærveru fjöldans, hvert sem maður fer. Sérstaklega er skrautlegt um að litast í miðbænum, þar sem iðar allt af lífi alla daga vikunnar. Við búum reyndar á heppilegum stað í borginni, búum í nyrsta hlutanum og erum ekki nema u.þ.b. 10 mínútur að hjóla út í næstu sveit að heilsa upp á beljur og svín. Við finnum allavega ekki fyrir neinni innilokunarkennd meðan við getum aðeins skroppið út í náttúruna þegar okkur hentar.
Er mikill munur á Hollendingum og Íslendingum?
Í Amsterdam skipa Hollendingar reyndar ekki nema um 60% allra íbúa. Amstedam er sögð vera fjölþjóðlegasta borg í heimi (sel það ekki dýrara en ég keypti það) en hér búa heil 120 þjóðerni! Þannig að ég myndi frekar segja að munurinn liggi á milli íbúa Hollands og Íslendinga, heldur en sjálfra Hollendinga og Íslendinga. Maður finnur gríðarlega mikið fyrir áhrifum þess að hér búi svona margir þjóðflokkar. Það er allt saman voðalega blandað, margir menningarheimar mætast og það sýnir sig best þegar maður skreppur í bæinn. Þar sér maður best hvernig öll heimshornin mætast en samt virðist alltaf vera ákveðinn sérhollenskur bragur yfir þessu öllu saman. Þetta setur allt saman mjög skemmtilegan svip á borgina og manni líður fyrir vikið í raun aldrei eins og útlendingi hérna. Hérna eru meira eða minna allir útlendingar hvort eð er!
Annars held ég að munurinn á samfélaginu hér og heima felist helst í því hvernig fólk hagar sér gagnvart hverju öðru. Hér er maður meira út af fyrir sig og þessi smáborgaraháttur sem virðist loða við íslenskt samfélag er ekki til hérna. Fólk er lítið að skipta sér af málum hvers annars hérna, einbeitir sér heldur að sínum eigin málum fyrst og fremst. Fyrir vikið er lífsgæðakapphlaupið sama sem ekkert, fólki er alveg sama hversu flottan bíl nágranninn var að kaupa sér og nágrannanum varðar ekkert um það hvort þú ferðist um á flottum jeppa eða gömlu hjóli. Fólk er bara eins og það er og fær að vera þannig í friði, í sátt og samlyndi við menn og dýr.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst