Það var í nógu að snúast hjá lögreglunni í vikunni sem leið og þá mest í kringum rannsókn á bruna í Fiskiðjunni og í kringum dansleik sem haldin var aðfaranótt sl. sunnudags í Týsheimilinu.
Þá þurfti lögreglan að aðstoða fólk vegna óveðurs sem geisuðu hér í sl. viku en nokkuð var um að lausir munir fuku og eins losnuðu þakplötur af húsum. Engin slys urðu á fólki í þessum veðrum sem gengu yfir Eyjarnar í sl. viku.
Þegar hefur verið gerð grein fyrir brunanum í Fiskiðjunni í fjölmiðlum og verður það mál ekki tíundað frekar hér.
Tvær líkamsárásir voru kærðar eftir skemmtanahald helgarinnar og var önnur í Týsheimilinu en þar lenti dyravörður í átökum við einn af gestum staðarins sem endaði með því að ein tönn í honum brotnaði. Hin árásin átti sér stað á veitingastaðnum Lundanum en í þvi tilviki lentu tveir gestir í átökum og hlaut annar þeirra manna áverka í andlti eftir þau viðskipti.
Lögreglumenn í Vestmannaeyjum óska Eyjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og hvetur fólk til að ganga hægt um gleðinnar dyr um hátíðarnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst