Það er ansi mikið búið að ganga á í sumar, en ég ætla að byrja á því að fjalla aðeins um fundina 2 sem haldnir voru í maí og nota um leið tækifærið til þess að þakka þeim fyrir sem komið höfðu að því að koma þessum fundum á, enda hafði ég ítrekað óskað eftir því að farið yrði yfir málin.
Margar góðar ræður voru haldnar á fundinum, en mér fannst svolítið skrýtið að sjá engan sjómann í pontu. Reyndar hafa flestir sem ég hef hitt síðan talið að þessir fundir hafi litlu skilað, en því er ég einfaldlega ósammála. Ég náði ekki að sitja fundina, en náði þó að skoða þetta á netinu þökk sé Tryggva og þeim á eyjar.net.
Á fyrri fundinum var mjög merkilegt að hlusta á Ásmund Friðriksson fjalla um útreikninga sína um það hvort og þá hversu mikill hagnaður er af rekstri Herjólfs, en í máli hans kom fram, að samkv. útreikningi hans hefðu ca. liðlega 300 milljónir verið afgangs á rekstri Herjólfs 2015. Ekki dettur mér til hugar að rengja þessar tölur, en ég hef að undanförnu verið að skoða þetta svolítið sjálfur og þá einmitt eins og hann, að hluta til, hvers vegna það er svona mikið dýrara að sigla til Þorlákshafnar, en ég er einmitt einn af þeim sem er af þeirri skoðun að mikilvægt sé að tryggt verði að Herjólfur verði hérna áfram eftir að nýja ferjan kemur. Vandamálið er hins vegar töluvert, enda nokkuð ljóst að þó svo að Herjólfur sé að sjálfsögðu þjóðvegurinn okkar og það eigi ekki að koma okkur við, hvort hagnaður eða tap sé á þessum þjóðvegi okkar, þá er það nú samt þannig að telja verður mjög líklegt að verulegt tap sé á siglingum til og frá Þorlákshöfn og þess vegna mjög mikilvægt að ef Vestmannaeyjabær ætlar sér að taka við rekstri Herjólfs, að tryggðir séu nægilegir fjármunir með verkefninu.
Siglingar í Landeyjahöfn eru þó klárlega reknar með hagnaði, en að sjálfsögðu ræður tíðin þar mestu um og þá hversu vel tekst til með að halda höfninni opinni. Stóra vandamálið þar er að mínu mati sú staðreynd, að Landeyjahöfn verði aldrei heilsárshöfn.
Eitt af fyrri fundinum í máli Gunnlaugs Grettissonar vakti athygli mína, en Gulli talaði m.a. um það, hversu frábært það væri fyrir okkur Eyjamenn að hafa þessa biðlista, vegna þess að við kynnum að nýta okkur þetta. Þessu er ég algjörlega ósammála, enda fer enginn á biðlista nema tilneyddur og ég leyfi mér að fullyrða það, að öll myndum við frekar vilja öruggt og tryggt pláss með ferjunni, frekar en þessa óvissu sem fylgir biðlistunum. Auk þess er augljóst, að tap ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum vegna allra þeirra ferðamanna sem ekki koma til Eyja vegna biðlistana hefur ekki verið metið, en ekki ólíklegt að þar sé um stórar upphæðir að ræða.
Á seinni fundinum var tvennt í svörum Jóhannesar Jóhannesarsonar sem vakti athygli mína. Í fyrsta lagi fullyrðingar hans um að nýja ferjan gæti víst farið á þremur tímum til Þorlákshafnar og það jafnvel í vondum veðrum. Ég er ekki sammála þessu og er mjög efins um það, að svona grunnrist ferja geti yfirhöfuð siglt til Þorlákshafnar, þegar ölduhæðin í Landeyjahöfn er komin yfir 3,5 m, enda augljóslega 6-8 m ölduhæð á sama tíma milli Þorlákshafnar og Eyja.
Varðandi ganghraðann (að marg gefnu tilefni) þá er það einu sinni þannig, að að öllum líkindum verður það rekstraraðili sem tekur ákvörðun um það, hvort skipinu verði siglt á 12,5 mílum eða á hámarkshraða, 15,5 mílum. Munurinn er sá, að ef við segjum að orkueyðslan á minni hraðanum sé 2, þá er hún amk. 5 til þess að ná meiri hraða og sem útgerðarmaður myndi ég sjálfur alltaf velja lægri töluna á mínu skipi.
Eitt var mjög jákvætt í máli Jóhannesar og það er, að að sjálfsögðu verður það skoðað þegar nýja ferjan kemur sá möguleiki að koma fyrir fleirum kojum í nýju ferjunni.
Varðandi breytingar eða lagfæringar á Landeyjahöfn sjálfri, þá voru eins og svo oft áður ýmsar hugmyndir í umræðunni, en í raun og veru má segja sem svo að Sigurður Áss hafi skotið það allt í kaf með orðum sínum um það, að enn hefðu engir fjármunir fengist í neitt af þessu og vandamál Landeyjahafnar því klárlega komið til að vera.
Margir spurðu um einhverjar tölur í sambandi við áætlaðar frátafir. Persónulega finnst mér það svona frekar vitlaust að vera að biðja menn að upplýsa um eitthvað, sem þeir ekki vita, enda fara frátafir eftir nákvæmlega því sama og hingað til, algjörlega eftir veðri, vindum og sandburði.
Staðan í dag er þannig að Herjólfur er aftur farinn í viðgerð og norska ferjan Röst byrjaði siglingar í morgun. Vonandi á hún eftir að reynast vel, en veðurspáin næstu vikuna er ekki góð. Heyrði reyndar þá kjaftasögu í síðustu viku,að sumir ráðamenn bæjarins hefðu vitað það strax í júlí, að Röst yrði fyrir valinu og að aðal ástæðan fyrir því að ekki væri fengin öflugri ferja væri, að sömu aðilar hefðu ekki áhuga á að fá eitthvað sem hin nýja ferja sem koma á á næsta ári gæti ekki staðist samanburðar við .
Það var annars ansi skemmtilegt að fá Akranes ferjuna hér um Þjóðhátíð, þar sem við Eyjamenn fengum svona lítið sýnishorn af því, sem við hefðum átt að vera að berjast fyrir, en ég ætla að enda þetta í þetta sinn með orðum þingmanns Sjálfstæðisflokksins á fundinum í vor, vonandi nálægt því að vera orðrétt: Þegar kemur að því að taka einhverjar ákvarðanir í samgöngumálum eyjamanna, þá er í 90% tilvika fyrst og fremst farið eftir óskum bæjarstjórnar.
Meira síðar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst