Eftir fimm ár á þingi er ég orðinn nokkuð reyndur í þingstörfunum. Allan tímann hef ég verið í meirihluta. Á margan hátt er það erfiðara fyrir óbreyttan þingmann að vera í þeirri stöðu.
Það setur manni skorður í umræðunni að vera í samstarfi við fleiri en einn flokk í ríkisstjórnarsamstarfi og mikilvægt að vanda sig og vera ekki af óþörfu að ræða um hugmyndir sem geta valdið óróa í samstarfinu. Í minnuhluta eru þingmenn frjálsari að koma fram með sínar hugmyndir og þurfa ekki að taka tillit til samstarfs við aðra flokka á þingi.
Þótt stjórnarandstaðan sé sundurlaus og sundurtætt, hefur henni tekist að ná saman í andstöðu við ríkisstjórnina, einstaka ráðherra og um einstök mál. Í atkvæðagreiðslum stendur minnihlutinn ekki síður saman en meirihlutinn og þar greiða allir eins atkvæði í stærstu átakamálunum, jafnvel þó einstaka flokkur gæti verið á annarri skoðun. Í samstarfi eru málamiðlun mikilvæg og ríkisstjórnir byggja á málamiðlunum. Þannig er það bara og hefur alltaf verið, það eru allir í liði, vinna saman, sýna styrk sinn og mátt.
Þrátt fyrir að allir sem nú eru kjörnir á þing hafi farið í gegnum þingmannaskólann þá er ég ekki viss um að umræðan hafi lagast. Það má sjá í umræðunni í mörgum málum þar sem harðar er sótt að persónum en málefnum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvernig einstaka þingmenn hafa farið í persónu dómsmálaráðherra. Margt oft hefur keyrt um þverbak í óþverranum. Svipaðar svívirðingar mátti forstjóri Barnaverndarstofu þola þar sem einstaka þingmenn fóru langt yfir öll velsæmismörk. Ég trúði því, eftir síðustu kosningar, að óþverravæðingu þingsins væru lokið og betri vinnubrögð og umræðu tækju við. En svo var ekki og alltaf koma nýir harðari leikendur í stað þeirra sem maður hélt að maður myndi ekki sakna.
Nýjasta dæmið um að þingið komi í veg fyrir efnislega umræðu var frumvarp atvinnuveganefndar um endurreikning veiðigjalds. Í fimm klukkustundir töluðu þingmenn stjórnarandstöðunnar undir liðnum fundarstjórn forseta til að koma í veg fyrir að málið kæmist á dagskrá. Það tókst. Frumvarpið fékk ekki efnislega meðferð en var tekið af dagskrá Merkilegast var að fylgjast með framgöngu þingmanna Miðflokksins sem stóðu þétt við bakið á Viðreisn, Pírötum og Samfylkingu. Þingmenn Miðflokksins bera ábyrgð á því að ekki tókst að leiðrétta veiðigjöldin og færa þau nær afkomu fyrirtækja í útgerð.
Spurningin sem brennur á vörum mínum er hvort vilji sé til í að gera betur. Ég veit það ekki. Margir þrífast í umhverfi þar sem ásakanir um brigsl, lygar, sjálftöku og jafnvel þjófnað eru sjálfsagðar. Fáum virðist líða betur en þingmönnum Pírata að saka aðra um óheilindi, ósannindi og þjófnað. Ég get lítið annað gert en vorkennt fólki sem þannig talar um náungann. Við þingmenn erum föst á gömlum stað þegar kemur að því að gera betur í umræðunni en enn er möguleiki að við tökum okkur taki og ég vona það besta.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst