Liðin vika var hefðbundin kjördæmavika þingmanna. Eftir fimm ár á þingi þá kemur í mig fiðringur þegar líður að kjördæmaviku sem eru tvisvar á ári, í upphafi hausts og vetrar.
Í haustvikunni förum við allir þingmenn kjördæmisins saman og hittum allar sveitarstjórnir og flesta sveitarstjórnarmenn í kjördæminu. Það er góð tenging og fróðlegt fyrir okkur að taka púlsinn og setja okkur inn í hitamálin á hverjum stað. Sannarlega eru þau oft sameiginleg í stórum dráttum, en þó ekki alltaf. Stóra málið í þessari ferð voru samgönguáætlun og því gott að sveitarstjórnar- og samgönguráðherra er þingmaður kjördæmisins.
Hann gat því svarað beint á hverjum fundi spurningum sem lágu sveitarstjórnarmálum á hjarta. Þrátt fyrir að allir væru ekki ánægðir þá kom mér á óvart hvað ráðherrann fékk blíðar móttökur og slapp vel frá öllum fundunum. Ég var þó ekki á fundinum í Eyjum vegna mikilvægs nefndarfundar í félagsmálaráðuneytinu en þar erum við á lokaáfanganum að ná sátt nefndarinnar um tillögur fyrir bættum kjörum öryrkja. Lokafundirnir eru mikilvægir og þeim get ég alls ekki sleppt frekar en hinum, langir fundir og mikilvægir. Vonandi stígum við góð skref til bættra kjara öryrkja með starfi okkar.
Önnur hitamál eru heilbrigðisþjónustan, hjúkrunarheimilin, skólaakstur, heimavist og hafnarmál. Allt grunnstoðir hvers samfélags og eðlilega lá sveitarstjórnamönnum mikið á í þeim málaflokkum og sífellt er kallað eftir meiri og betri þjónustu. Ég held að sá tími komi aldrei þar sem nóg er að gert í heilbrigðismálum. Það eru sífellt að koma nýjar kröfur og á mínum fimm árum finnur maður breytinguna, áherslurnar eru aðrar og ný mál koma fram þegar önnur verða fortíðinni að bráð.
Í fyrstu kjördæmavikunum mínum voru húsnæðismálin og stað heimilanna aðalmálið og fátt annað komst að. Staðan var svakaleg og hjá Brunavörnum Suðurnesja var lyklaspjald með hátt í 500 lyklakippum af íbúðum og heimilum á Suðurnesjum sem voru yfirgefin og í eigu Íbúðalánasjóðs og bankanna. Í Garðinum þar sem ég átti heima á þeim tíma voru yfir 60 auðar íbúðir í sveitarfélagi, þegar mest var af 500 íbúðum. Við munum öll þessa tíma hvað það var ömurlegt að keyra um margar íbúðagötur um allt kjördæmið og horfa á auða glugga og líflaus hverfi sem urðu til í kreppunni fyrir 10 árum síðan. Í dag er staðan önnur, nú vantar hundruð íbúða í kjördæminu og kannski 500 á Suðurnesjum. Sveitarfélögin hafa úthlutað fjölda lóða eins og Rangárþingin tvö en þar er búið að úthluta samtals 90 lóðum það sem af er þessu ári.
Skuldir heimilanna hafa lækkað, laun og kaupmáttur fólksins aukist verulega og þess vegna lækkar kostnaður við vaxtabætur og staðan hjá okkur öllum er sem betur fer betri. Það verður þó að segjast eins og er að fólkið á lægstu laununum hefur setið eftir vegna aukins húsnæðiskostnaðar. Þegar ég kom á þing 2013 voru bætur Almannatrygginga c.a 190.000 kr. á mánuði, í dag eru sömu bætur 300.000 kr.
Vandamálið er að hækkun bóta hefur í fjölda tilfella farið í aukin kostnað vegna síhækkandi leigu sem hefur étið upp stærstan hluta hækkunarinnar. Það er því eðlilegt að stór hluti þessa fólks finnur ekki fyrir kaupmáttaraukningunni þegar ekkert er eftir í veskinu til að njóta lífsins þegar búið er að borga leiguna og annan fastan kostnað. Ný lög um almennar íbúir munu þó með tíð og tíma bæta úr þessu en þörf er á stórátaki í húsnæðismálum þessa hóps. Þess má geta að á næstunni verða fullgerðar 6 íbúðir í Sandgerði í nýja kerfinu og verður leigan 25% af lægstu tekjum eða á bilinu 60.000 kr. á mánuði. Á næstunni verðum við að stíga stærri skref í húsnæðismálum þessa hóps.
Íbúum fjölgar i kjördæminu í Mýrdalshreppi fjölgaði hlutfallslega mest hér á landi á tímabilinu frá 1. desember 2017 til 1. október síðastliðinn, eða um 11,7% en íbúum þar fjölgaði úr 626 í 699. Þá hefur íbúafjölgun verið mest á Suðurnesjum frá 2010 eða 20.91% eða um 5.592 á sjö árum. Það er því óhætt að segja að Suðurkjördæmi sé á bullandi siglingu hvert sem litið er.
Kjördæmavika þingmanna er fróðleg í ört vaxandi kjördæmi og skemmtilegur og mikilvægur þáttur í þingstarfinu.
Ásmundur Friðriksson
Höfundur er alþingismaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst