Eftir ábendingu frá góðum vin hef ég verið á hlusta á þætti Veru Illugadóttir á Rás 1 Ríkisútvarpsins, Í ljósi sögunnar. Það er notalegt að láta þættina renna í gegnum heyrnatólið sem hangir á eyrunum í morgungöngunni.
Þættirnir eru afar áheyrilegir, vel gerðir og efnistökin forvitnileg og af mörgum toga. Margir þættirnir fjalla um atburði sem eru minni kynslóð í fersku minni en annað eldra og margt sem ég hef lítið leitt hugann að fyrr en ég heyri þættina. Það er margt sem glepur hugann á morgungöngunni og ekki ósjaldan kemur það fyrir að athyglisbresturinn kallar á að ég verða að spóla til baka þegar hugurinn er kominn út um víðan völl og ég man ekkert hvað Vera var að lesa fyrir mig síðustu augnablikin.
Það verður aðeins til að festa mér betur í minni hvað sagt var enda hafa þættirnir fangað athygli mína og ég hef nægan tíma einn með sjálfum mér gangandi í morgunmyrkrinu. Margir þættir fjalla um völd og valdabrölt einstaklinga og verstu útgáfur misnotkunar valds. Þegar ég huga til baka um þessa þætti um völd og valdabrölt þá er í þeim sameiginleg lína. Flestir ef ekki allir eru að skara elda að eigin köku á kostnað annarra.
Þegar á toppinn er komið gleymast baráttumálin og allt fer að snúast um eigin hag og tryggja setuna sem lengst. Slíkar ógnarstjórnir sitja svo árum og áratugum saman og heilu kynslóðirnar þekkja ekki annað en kúgun og ofbeldi þó markmiðin í upphafi hafi verið að útrýma slíkum ósóma. Allir öfgahópar hverju nafni sem nefnast, hverrar pólitískrar línu þeir dansa á eða í skjóli hvaða trúarbragða þeir skýla sér hafa í enda dagsins eitt markmið, að vernda eigin hag. Þetta kemur skírt fram í þáttunum um Róhingja í Mjanmar; um Erdogan Tyrklandsforseta, konungsfjölskylduna í Sádi-Arabíu, forseta Brasilíu og fleiri áhugaverð umfjöllunarefni þáttarins Í ljósi sögunnar.
Ég þekki ekki innviði Sjómannafélags Íslands, stjórnarmenn þess eða yfir höfuð nokkurn þar á bæ. En upplifun mín af fréttum af því félagi hafa kallað fram viðbrögð og hugsanir eins og komu upp í huga mér þegar ég hugsa um þættina Í ljósi sögunnar og ég dreg fram í dagsljósið hér að framan.
Að reka mótframbjóðenda um formennsku úr félaginu er ótrúlega líkt siðlausu valdabrölti einstaklinga sem olnbogað hafa sig í gegnum mannfjöldann og náð völdum sem enginn annar á síðan rétt á að þeirra mati. Að svara ekki beiðni um félagsfund þó yfir 100 félagsmenn vilji ræða málefni félagsins sem greinilega eru í miklu uppnámi er siðlaust. Það á enginn neitt í almennu félagi frekar en í pólitík. Þar á bæ er líka fólk sem heldur að það eigi eitthvað þegar kemur að kosningum. Það er misskilningur, félagsmennirnir eiga félagið og kjósendur ráða því hverjir eru kosnir til valda.
Berum virðingu fyrir því. Vandamál verkalýðshreyfingarinnar er að forysta flestra félaga er kosin með afar litlum hluta félagsmanna, því margir sitja heima. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þeir sem kjósa ráða úrslitum en ekki þeir sem heima sitja á aðalfundardegi. Það sama á við í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna og brýnt að hvetja fólk til lýðræðislegrar þátttöku í félögum og pólitík. Í ljósi sögunnar skulum aldrei gefa afslátt af lýðræðinu.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst