Ágæti Lárus. Þú sendir okkur Eyjamönnum tóninn fyrir nokkrum dögum síðan og tjáðir okkur að þið Björgunarmenn væruð að gera ykkar besta varðandi dýpkun Landeyjahafnar.
Að danski ryðkláfurinn Dísa væri okkur fullgóð þar sem stærð hennar og búnaður væri innan þeirra marka sem Vegagerðin taldi nægja samkvæmt útboðinu sem fram fór í fyrra. Við eigum bara að kokgleypa þetta af því að eitthvað stóð á einhverjum pappír og hana nú.
Mér skilst að færðin hafi verið frekar slæm um Öxnadalinn síðustu dægrin og menn hafi keppst þar við að moka snjó þannig að heimamenn kæmust leiðar sinnar. Vonum að svo sé, enda þykir mér vænt um Akueyringa, bjó það meira að segja einu sinni. Mér skilst að stjórnarformaður þíns ágæta fyrirtækis sé úr hinum svonefnda Samherjagarði. Það mundi væntanlega heyrast hljóð úr þeirra horni ef ég færi að moka snjóinn á Öxnadalsheiðinni með handónýtum dráttarvélum, jafnvel þó danskar væru, og þeir kæmust ekki ferða sinna, eða hvað heldur þú?
Spakir menn segja stundum að sporin hræði. Lárus minn kæri, í Vestmannaeyjum eru á fimmta þúsund spakar sálir sem hugsa í þessa veru þegar Björgun ber á góma. Getuleysi ykkar í vetur er gott dæmi um slíkt. Annað dæmi er að gamall danskur ryðkláfur sem þið skýrðuð Dísa eigi sér núna heimahöfn í Þorlákshöfn, enda þægilegra fyrir áhöfnina að aka heim frá þeim stað en frá Vestmannaeyjum, sem er aðeins í seilingarfjarlægð frá vinnustaðnum, Landeyjahöfn.
Litla Dísa var staðsett í Þorlákshöfn lengst af vikunnar, enda er styst fyrir áhafnarmeðlimi að aka til síns heima þaðan. Þar er Pétur Mikli einnig staðsettur. Nokkur orð um Pétur Mikla fyrir þá sem ekki til þekkja, þá var hann Rússakeisari í 44 ár, en hann fæddist árið 1672, ja svona rétt eftir að alsírskir sjóræningjar sóttu Eyjamenn heim svo frægt er og fluttu með sér suður á bóginn. Ekki er ég viss um að Pétri þyki mikið til koma, allavega ekki meira en svo að í himnaríki er hann kallaður Pési þeytivinda, svo oft hefur hann snúið sér við í gröfinni eftir að þið gáfuð prammanum góða nafn.
Pétur prammi er einnig staðsettur í Þorlákshöfn, og guð veit hversu langan tíma það mun taka að draga herlegheitin þaðan í téða Landeyjahöfn. Dísa litla hefur ganghraða upp á rúmar 6 sjómílur og er því um 6 klukkutíma á leiðinni samkvæmt vini mínum herra Excel sem þú þekkir víst mætavel. Það væri hægt að dæla ansi miklu magni af sandi á þeim tíma sem það tekur að sigla frá Þorlákshöfn, en money talks er það ekki svo.
Að skipin skuli ekki vera staðsett í Eyjum þannig að hægt sé að nota þau með skömmum fyrirvara er auðvitað lifandi dæmi um þá lítilsvirðingu sem þið norðanmenn sýnið okkur. Galilei hefur það fram yfir Dísu litlu að þegar hún kastar af sér sandinum gerist það eins og hjá mannfólkinu, að neðan og gerist á svipstundu. Dísa greyið er aftur á móti skilst mér með þeim annmörkum að sandurinn sem hún sýgur hverju sinni skal út um sama op og hann kom inn um, það er það þarf að dæla honum út, sem tekur jafn langann tíma og að koma sandinum inn fyrir.
Hér fyrir neðan er samanburðartafla sem sýnir afkastamun Dísu litlu og Galilei 2000:
Taccola |
Galilei |
Sóley |
Dísa |
|
Efnisburður rúmmetrar: |
4400 |
2320 |
1450 |
540 |
Lengd í metrum: |
93,5 |
83,5 |
79,38 |
58,1 |
Breidd í metrum: |
21 |
14,5 |
13,2 |
10,3 |
Heildarafl, kW: |
6330 |
3380 |
2258 |
625 |
Ekki veit ég hvað er kurteisi í þínum heimahögum, en hér þykir það ekki kurteisi að halda heilu byggðarlagi í gíslingu vegna fjárhagslegra hagsmuna eins fyrirtækis. Þá ætla ég að nota þá kurteisi sem mér skilst að gildi hjá forráðamönnum þíns fyrirtækis en frændi stjórnarformannsins kastaði “góðlátlegri kveðju” á seðlabankastjóra á göngum alþingis í vikunni. Ég ætla að nota tækifærið og sýna ykkur sömu kurteisi og kasta hér með á ykkur sömu kveðju.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst