Þegar fjórða iðnbyltingin er að ryðja sér til rúms í sjávarútvegi með aukinni framleiðni, verðmætasköpun og betri afkomu, fækkar störfum í greininni. Það er því verkefni atvinnulífsins að mæta þeirri þörf með nýjum störfum.
Vestmannaeyingar eins og önnur sveitarfélög kalla eftir nýjum opinberum störfum og störfum án staðsetningar. Mikilvægast er að skapa störf, sem eru undirstaða velmegunar og gjaldeyristekna. Vel launuð störf sem geta tekið á móti því fólki sem hverfur úr sjávarútvegi er það sem samfélagið í Eyjum þarf á að halda. Störf sem tengjast nýsköpun, hugviti og ferðaþjónustu eru störf sem sterkt atvinnulíf, einstaklingar og sveitarfélag ættu að leggja til fjármagn og reynslu. Atvinnulífið, einstaklingar með fjárhagslegum stuðningi og sveitarélagið með beinni aðkomu að markaðssetningu Vestmannaeyja.
Á árinu 2018 er talið að 1.7 milljón ferðamanna hafi ekið yfir brúnna á Ytri Rangá við Hellu og þegar best lét fóru rúmlega 4.000 bílar yfir Gatnabrún við Vík í Mýrdal á dag. Þúsundir stoppuðu við Seljalandsfoss og Skógafoss á hverjum degi. Afþreyingarfyrirtæki í ferðaþjónustu eins og Southcost adventure á Hvolsvelli sem hefur yfir 30 manns í vinnu og á tugi farartækja, hjóla og annarskonar afþreyingarbúnað hefur ekki minna að gera yfir vetrarmánuðina en yfir hásumarið. Á sama tíma og allt þetta fólk ekur um Suðurland er talið að 20.000 erlendir ferðamenn hafi beygt niður í Landeyjahöfn og siglt til Eyja.
Vissulega þarf að bæta samgöngur við Eyjar. Auka öryggi siglinga í Landeyjahöfn og innanlandsflugið á Íslandi þarf að búa við lægri álögur sem gera reksturinn mögulegan og fargjöldin hófleg. Það má því segja að þær tvær stoðir sem standa undir samgöngum við Eyjar hafi hvorugar þá burði eða öryggi sem þarf til þess að treysta bestu mögulegu samgöngur við Eyjar allt árið um þessar mundir. Öruggar samgöngur eru undirstaða ferðaþjónustunnar allt árið, en ljóst er að það mun taka tíma að ná því marki. En það er ekki kostur að bíða með að hefja sóknina sem mun byggja á því góða sem þegar er til staðar hjá ferðaþjónustunni í Eyjum. Og vera komin á betri stað en í dag þegar samgöngurnar verða komnar í það horf sem við ætlumst til. Að því markmiði munum við öll vinna.
Nú þegar liggur fyrir mikil fjárfesting í ferðaþjónustunni í Eyjum sem skapar fjölda starfa. Í nýútkominni skýrslu „Ferðaþjónustan skiptir máli“ sem samtök í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum létu taka saman kemur fram að heildarfjárfesting í greininni er 6.1 milljarður og sumarstörfin tæplega 300 en yfir vetrarmánuðina starfa rúmlega 100 manns í greininni. Hér er sterkur grunnur til að byggja á og nú þarf samtakamátt atvinnulífs og bæjarfélags til að efla greinina enn frekar svo hún geti skapað fleiri heilsársstörf og verði næsti vaxtarbroddur atvinnulífs í Eyjum.
Sveitarfélagið þarf að koma myndarlega að kynningarmálum fyrir Vestmannaeyjar og leggja til þess fé á hverju ári eins og aðra innviði atvinnulífsins. Markaðssetningu má vinna með Íslandsstofu en þar eru verkefni unnin fyrir atvinnulífið með svokölluðum krónu á móti krónu samningum auk þess sem þeir veita fyrirtækjum og sveitarfélögum ráðgjöf. Það er ekki meira að sveitarfélagið styrki slíka markaðsstarfsemi en byggja hafnir fyrir sjávarútveginn og styðja menningar og íþróttastarfsemi í bænum. Allt er þetta mikilvæg samfélagsleg verkefni. Bæjarsjóður nýtur tekna af allri atvinnustarfsemi og mikilvægt að sterkt sveitarfélag hlúi vel að öllu þáttum atvinnu- og mannlífs í bænum. Samstarf við Íslandsstofu og öfluga aðila í ferðaþjónustu er lykillinn að því að nýta þau tækifæri sem við höfum í dag. Við ætlum okkur að tryggja betur öruggar samgöngur og fjölga tækifærum í afþreyingu ferðamanna í Vestmannaeyjum allt árið. Ferðaþjónustan í Eyjum, uppbygging hennar, þjónusta og þekking eru mikil verðmæti sem hægt er að byggja á góða framtíð fyrir atgerfisfólk sem ekki má missa frá Vestmannaeyjum. Tími ferðaþjónustunnar er núna.
Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst