Eyjar.net greindi frá því í dag að sjúkraflugvél Mýflugs hafi verið 80 mínútum yfir þeim hámarkstíma (105 mín) sem kveðið er á um í samningi Sjúkratrygginga Íslands og Mýflugs um sjúkraflutninga á hæsta forgangsstigi.
Alls voru þetta 185 mínútur sem umræddur sjúklingur þurfti að bíða til að komast upp í vél. Þá átti eftir að flytja hann til Reykjavíkur og koma honum á spítala.
Í viðtali við Leif Hallgrímsson, framkvæmdastjóra Mýflugs hér á Eyjar.net í dag segir hann að það sé læknirinn á sjúkraflugvélinni sem forgangsraðar og ákveður hvort þörf sé á vél númer 2 eða ekki.
Við þetta er ýmislegt að athuga. Fyrir það fyrsta, hvernig á læknir hinu megin á landinu að geta sagt betur til um ástand sjúklings en þeir læknar sem meðhöndla hann. Er sanngjarnt að setja þann lækni í þá stöðu að velja á milli sjúklinga?
Þarna koma upp tvö mjög alvarleg tilfelli sitt hvoru megin á landinu. Jafn alvarleg ef marka má það forgangskerfi sem notast er við. Bæði F1. Öðru var sinnt sem F1 en hitt féll miðað við tímann niður í F3.
Þegar að læknar taka ákvörðun um að flytja þurfi sjúkling á hæsta forgangsstigi hlýtur það að gilda og eiga þeir sem og sjúklingarnir að geta gengið út frá því með vissu að fyrrgreind tímamörk séu virt í slíkum neyðartilfellum. Því eins og segir í forgangi F1, er um er að ræða lífsógn/bráðatilvik sjúklings. Því er ljóst að í þessu tilviki átti að kalla til þyrlu til að sinna öðru þessara verkefna.
Ef það er huglægt mat einhvers annars sem á að gilda framar mati þeirra sem eru að meðhöndla sjúklinginn, þá er eins gott að endurskoða það forgangskerfi sem búið er að koma upp. Heilbrigðisráðherra hlýtur að líta málið alvarlegum augum. Það gera bæjarbúar í Vestmannaeyjum allavega.
Sem betur fer kostaði þetta nýlega dæmi ekki mannslíf, en næst getur slík töf kostað mannslíf!
Tryggvi Már Sæmundsson
Höfundur er ritstjóri Eyjar.net.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst