Flug milli Vestmannaeyja og lands var með miklum blóma fyrir Landeyjahöfn. Flestir stigu 89 þúsund farþegar úr flugvél á Vestmannaeyjaflugvelli á einu ári, og árin 2003 til 2009 voru farþegar að meðaltali 74.500.
Í fyrra voru þeir 11.690. Flugfélag Íslands sinnti flugi hingað með glæsibrag í áratugi. Flug var vænlegur kostur því það var sanngjarnt. Flugfélag Vestmannaeyja flutti það marga farþega milli Bakkaflugvallar og eyja að lagt var slitlag á brautina og glæsileg flugstöð byggð. Eyjamenn byggðu fjölda bílskúra við flugstöðina til að geta nýtt sér þennan ódýra samgöngumáta. Þrjú ár í röð flutti litla flugfélagið yfir 30 þúsund farþega milli lands og eyja. Þegar Landeyjahöfn opnaði var ríkisstyrkurinn tekinn af Flugfélaginu.
Flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja skipti efnahag fyrirtækja í eyjum og samfélagið allt miklu máli. Sjálfur þekki ég það af eigin raun. Þegar ég byrjaði að vinna við ferðaþjónustu hérna árið 2005 sótti maður fjölda ferðamanna á hverjum degi á flugvöllinn og skildu eftir krónur í kassa þeirra sem þeir skiptu við. Páll Helgason sagði mér að meðan hann bauð upp á báts og rútuferðir hafi fjöldi ferðamanna sem hann sinnti af flugvellinum oft skipt hundruðum á dag. Í dag er öldin önnur, enda verð á flug slíkt að fáir hafa ráð á því. Þegar ég bendi á þessa staðreynd fæ ég gjarnan að heyra að þessir farþegar hafi flutt sig á Herjólf. Ég segi nei. Getgátur.
Ísavía heitir stofnun og er oháeff. Oháeffið gefur þeim völd sem kjörnir fulltrúar okkar ættu að hafa. Snillingarnir við Austurvöll komu á lögum um ohf til þess að ýta frá sér vandræðabörnum svo ekki væri hægt að benda á þá. Flugvellir á Íslandi eru undir Ísavía og skulu reknir eins og fyrirtæki. Í stað þess að rekstur flugvalla sé í höndum ríkisins sem sjái um rekstrarkostnað eru þeir reknir af innkomu flugvalla í formi ýmissa gjalda sem farþegar að lokum þurfa að greiða. Þetta er innheimt gegnum flugfarseðla og er hluti vandamálsins. Ísavía er eina ríkisrekna útfararstofa landsins sem sér um að jarða eitthvað annað en fólk.
Innviðum ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum blæðir vegna skammsýni ráðamanna. Það þýðir ekki að bjóða okkur upp á 20 til 30 sæti að meðaltali á dag. Við þurfum að komast í sama form og áður, þegar framboðið var 250 sæti, með öflugum og stórum flugvélum.
Nú þegar flugfélagið Ernir hafa ákveðið að hætta flugi milli eyja og Reykjavíkur er mikilvægt að stjórnvöld bjóði flug til eyja út og setji ákveðin skilyrði um fjölda ferða og hámarksverð. Einungis þannig getur ferðaþjónustan í eyjum náð aftur vopnum sínum. Sökum vanefnda hins opinbera varðandi samgöngur milli lands og eyja ber ríkinu skylda til að koma Vestmannaeyingum til hjálpar.
Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður mætti hingað til eyja í upphafi síðasta árs og hélt vart vatni þegar hann kynnti skosku leiðina svokölluðu. Þegar Njáll leit við hérna í eyjum kostaði flugmiðinn rúmar 14 þúsund krónur. Hann var varla búinn að kynna afkvæmið þegar flugmiðinn aðra leið hækkaði í á sautjánda þúsund hvernig sem nú á því stóð. Þegar líða tók á árið gerði bæjarstjórn Vestmannaeyja þá skyssu að mæla eindregið með skosku leiðinni en þá hækkaði flugverð í upp undir 20 þúsund aðra leið, hvernig sem nú á því stóð.
Árum saman hafa verkalýðsfélögin í eyjum verið með samning við flugfélagið Erni þess efnis, að þeir keyptu og staðgreiddu 100 flugmiða, fengu í staðinn 50% afslátt á þeim sem seldir voru til félagsmanna á því verði. Meira en helmingur vinnufærra manna í eyjum eru í verkalýðsfélögum sem buðu upp á þessa flugmiða. Þegar félagi Njáll hélt fundinn fræga kostaði flugmiðinn í gegnum veralýðsfélögin 7.300 krónur. Nú bregður svo við að ekki verður samið við verkalýðsfélögin vegna skosku leiðarinnar. Afsláttur vegna hennar verður 40%. Sá sem kaupir greiðir fullt verð en leggur svo miðann inn til endurgreiðslu. Já, það verður ekki af hinu opinbera skafið. Núna eftir trakteringar Njálsins kostar miðinn um 12 þúsund krónur, hann er sem sagt nálægt 5000 krónur dýrari. Þetta skipti mann sem ekki þarf að borga flugmiðann sinn ekki miklu máli en veistu, þeir sem hafa notið afsláttarkjara verkalýðsfélaganna eru oftar en ekki þeir sem minnst hafa milli handanna. Vel af sér vikið Njáll.
Þetta geðveika flugverð hefur orðið til þess að nánast enginn ferðamaður nýtir sér flug hingað. Þjónustufyrirtæki í eyjum sem byggja afkomu sína á ferðamönnum standa á brauðfótum á sama tíma og yfirvöld hugsa um það eitt að bjarga flugfélagi en ættu að hafa hugann við þau fyrirtæki í eyjum sem bundið hafa vonir sínar við upplogin loforð um Landeyjahöfn. Um það ætla ég að fjalla í grein sem birtist síðar í vikunni.
Það á að vera skýlaus krafa eyjamanna að flugið verði boðið út með skilyrðum um stærð flugvéla, fjölda flugferða og hámark flugverðs. Ef leysa á áætlunarflug til eyja með skosku vitleysunni er betur heima setið en af stað farið. Hættið þessari vitleysu núna og komið með alvöru tillögur.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst