Einhvern tímann var mér sagt að austur í Kína hugsuðu þeir áratugi eða árhundruð fram í tímann. Á Íslandi hugsum við einungis til næsta dags.
Uppí Skipalyftu liggur Blátindur og hvílir lúna eik. Hann skilaði þjóðfélaginu vel meðan hans naut við. Honum liggur ekkert á. Það eitt eru rök fyrir því að við sýnum honum virðingu. Hann og hans líkir drifu þjóðfélagið upp á afturlappirnar á síðustu öld. Takk fyrir það gamli. Að ætla að taka þá skyndiákvörðun að rífa skipið er ekkert annað en að pissa í skóna sína. Liggur eitthvað á að taka þessa ákvörðun? Er ekki alveg eins hægt að koma honum í skjól og taka þessa ákvörðun síðar? Mér dettur í hug flugskýli ISAVIA á Vestmannaeyjaflugvelli sem eingöngu er notað sem saltgeymsla. Kannski vildi Léttir kíkja í heimsókn honum til samlætis næstu árin. Á meðan gætum við andað rólega og ákveðið næstu skref í safnamálum okkar.
Í kjallara Sagnheima hvílir málverkasafn bæjarins sem telur hundruð verka íslenskra meistara sem flestir eru löngu gengnir, safn sem er engum til ánægju. Mér skilst að það sé mikils virði. Skyldu meistararnir hafa ætlum verkum sínum athvaf í geymslum en ekki fólki til yndisauka. Hvernig væri að selja þau á uppboði í rólegheitunum meðan félagarnir Léttir og Blátindur hvílast á flugvellinum og safna með því fjármunum til að koma þeim í sýningarhæft stand.
Félag áhugafólks um vernd Blátinds afhenti skipið nýupptekið í hendur bæjarins fyrir 20 árum og 30 milljónum síðan. Bærinn má skammast sín fyrir hvernig til hefur tekist og þá óvirðingu sem þessum aðilum er sýnd. Betra hefði verið að neita að taka við bátnum og nú á að kóróna óvirðinguna.
Eldheimar er eitt glæsilegasta safn landsins en af hverju reistum við Eldheima? Af hverju skipti sú saga meira máli en önnur? Eldheimar liggja næst okkur í tíma. Ef gosið á heimaey hefði átt sér stað árið 1627 og tyrkjarán fyrir 48 árum síðan væri tyrkjaránssafn við rætur Eldfells. Tyrkjaránssafn á svo sannarlega rétt á sér.
Af hverju var Landlyst byggð á sínum tíma? Ginklofinn tók líf stærsta hluta hvítvoðunga í eyjum á átjándu og nítjándu öld. Hingað voru sendir fulltrúar danaveldis sem m.a. gerðu úttekt á húsakostieyjamanna. Sú saga er frekar ógeðfelld lesning. Hvernig væri að spýta í. Væri ekki gaman að sjá hvernig stöllurnar Guðríður Símonardóttir og Anna Jasparsdóttur lifðu fyrir 400 árum síðan. Það væri hægt að gera líkan, en líkan er ekki upplifun. Hefði ekki verið ódýrara að gera líkan að Eldheimum?
Líkan af Blátindi segir ekki neitt. Safngripurinn Blátindur á að vera upplifun. Safngesturinn á að geta farið um borð og upplifað það líf sem sjómönnum um miðja síðustu öld var boðið uppá. Það er safn. Eldheimar er upplifun. Það er safn.
Ég sting uppá því að stofnað verði safnaráð sem gerir tillögur um safnastefnu til framtíðar. Að við tökum Kínverja okkur til fyrirmyndar og gerum áætlun til næstu 20 til 30 ára. Skynsamlegast væri auðvitað að halda áfram uppbyggingu við Eldheima þannig að öll söfn bæjarins verði þar í komandi framtíð. Slíkt hefur aldrei verið gert í neinu byggðarlagi landsins og myndi vekja mikla athygli. Þannig gætu íslendingar og erlendir ferðamenn komið hingað og notið sögunnar.
Sú ákvörðun að senda Blátind á fund feðra sinna er stundarákvörðun bæjarstjórnar sem lítinn áhuga hefur á því að vernda fortíðina. Bæjarstjórn er stundarfyrirbrigði. Kannski koma bæjarstjórnir í framtíðinni sem sýna fortíðinni meiri áhuga. Gefum þeim tækifæri til þess að ákveða framtíð félaganna Blátinds og Léttis. Munið að það er skammgóður vermir að pissa í skóna sína.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst