Í starfi mínu sem kennari hef ég fengið mikinn fjölda af skemmtilegum tilsvörum frá nemendum í gegnum tíðina.
Eitt sinn var ég forfallakennari í leikfimi hjá 3. bekk þegar ég hló og benti einum drengnum á að það sem hann væri að gera væri einfaldlega svindl. „Nei! Þetta er kænska,“ svarði hann glottandi á móti – einn af tveimur í tímanum sem vissi hvað orðið kænska þýðir.
Svo eru tilsvör sem eru alveg hvimleg. Oft snúa þau að því að foreldrar gerðu ekki þetta eða hitt, og oftast þá mömmurnar. Mamma gleymdi að setja nestið, mamma gleymdi að setja stærðfræðina í töskuna, mamma gleymdi að láta mig lesa, mamma gleymdi að setja sundskýlu og svei mér þá ef mamma gleymdi ekki einhvern tímann að skrúfa höfuðið á. Ég hef alltaf kennt á svokölluðu miðstigi í umsjón, sem er þegar börn eru 10 – 13 ára. Því hafa þessar afsakanir aldrei verið teknar gildar enda krakkarnir löngu klárir að græja þessa hluti sjálfir, þó að foreldrar geti vitaskuld hjálpað til.
En þessi pistill er ekki um tilsvör barna eða ferkanntaðan kennara. Þegar ég fór í 4. bekk og þurfti að mæta kl. 8 í tvísetnum skóla, sagði mamma við mig að nú væri ég að fara að mæta á morgnana eins og stóru krakkarnir og ætti að sjá um mitt nesti sjálfur. Og eftir það sá ég um mitt nesti sjálfur. Ég lærði á þvottavélina heima hjá mér mjög ungur og þegar hún var búinn náði ég í stól til að ná upp á snúrurnar svo ég gæti klemmt upp þvottinn. Það var reyndar ferlegt þegar gulu íþróttasokkarnir frá Þrótti Nes slægðust með í einn suðuþvottinn og mamma þurfti að ganga um í gulslikjóttum nærfötum næstu misserin.
Það beið mín stundum miði þegar ég kom úr skólanum sem á stóð að ég þyrfti að kveikja á þessari hellu klukkan þetta og sjóða svona lengi og svo kæmi mamma heim kl. 19 og þá væri matur. Þá var ég jafnvel búinn að sækja systur mína á leikskólann og hafði ofan af fyrir henni – alltaf í mesta bróðerni – þar til mamma kom heim úr vinnu og maturinn var tilbúinn. Þægilegast var þegar það var slátur, því það sauð svo lengi og ég þurfti bara að stinga bláa hnífnum á svona 30-40 mínútna fresti í keppina og ekkert að hræra.
Mamma talar ekki þýsku eða er með yfirvaraskegg fyrir miðju. Hún ól mig bara upp þannig að ég átti að taka þátt í heimilishaldinu og sjá um það sjálfur sem ég gat séð um. Ég byrjaði 11 ára að bera út blöð og eftir það fékk ég lítinn sem engan vasapening. Og mig skorti ekki neitt. Pabbi ól mig auðvitað líka upp en hann var á Berki NK og ekki alltaf til taks við uppeldið.
Einhverju sinnum kvartaði ég undan því að þurfa að fást við þessi blessuðu heimilisstörf eða barnapössun. Vinir mínir þyrftu ekki að gera svona mikið heima hjá sér og af hverju þurfti ég að gera svona mikið? Mamma svaraði mér eins móðurlega og hún gat, að ég myndi kunna að meta þetta seinna meir og einhvern tímann myndi ég kynnast konu sem sannarlega kynni að meta þessa góðu hæfni mína.
Ég var rétt að verða tvítugur þegar ég flutti að heiman – í borg óttans! Basl var á húsnæðismálum hjá mér fyrsta veturinn en svo bjó ég einn í stúdentaíbúð næstu árin. Og ekki stóð á kunnáttunni. Þvotturinn þveginn á réttum hita, kjötsúpan mallaði, lummurnar slóu í gegn í sunnudagskaffi, allt til í heimabakaða pizzu fyrir helgina, skyrtan straujuð og skórnir pússaðir fyrir djammið og svo mætti lengi telja. Allt upp á 10.
En svo gerðist það. Ég kynntist loksins konu! Og viti menn! Hún kunni bara heilmikið að meta þessa hæfni mína. Ég bauð henni í mat og bað hana um að setjast hjá mér í eldhúsinu á meðan ég myndi baka upp sósuna. Við myndum reyndar borða í stofunni, enda var ég búinn að strauja dúk og finna til kerti. Þessum árum síðar er hún konan mín og móðir barnanna minna. Okkar, svona til að stíga ekki á neinar tær.
Ef ég hélt að ég væri kannski happafengur, hvað var hún þá? Og haldið ykkur fast. Hún er húsmæðraskólagengin! Hún fór af áhuga í skóla til að læra betur þrífa, elda og sauma. Fer ekki bara í saumaklúbb til að raða í sig hitaeiningum, heldur græjar rúmteppi handa dætrum okkar og ullarhúfur að auki. Hún er svo klár í húsverkunum að það eru 7 flokkar af því sem má fara í þvottavélina! Dökkt er ekki það sama og dökkt. Það á að raða hnífapörum svona í uppþvottavélina en ekki hinsegin! Það á að brjóta dúk svona saman en ekki svona! Það á að þrífa klósettið með þessu efni en ekki því sem mamma mín gerir – og ég gerði alltaf! Og það á að slökkva á vatnsrennslinu á meðan maður burstar. Svo er bara hægt að kveikja aftur þegar maður skolar kjaftinn og drekkur svo sopann sem er óþarfur og fær mann til að hugsa allt of oft hvort hafi verið of stór og að maður þurfi kannski aftur að pissa áður en maður fer að sofa! Ok, þetta síðasta var reyndar kannski bara eitthvað sem ég hugsa.
En allavega. Ég fékk talsvert uppeldi og kennslu í heimilisstörfum sem krakki og nýttist það mér ansi vel. Nýttist… ég nefnilega kann ekki á þessa nýju þvottavél sem við urðum að kaupa fyrir tveimur árum síðan, ég veit ekki alltaf hvar handklæðin til að þurrka hendurnar eru geymd, brauðristin er geymd ofan í súffu. Ég var einn með stelpurnar í heilan dag um daginn og það þurfti að gera fötin þeirra klár fyrir komandi dag svo ég myndi örugglega ekki klúðra því að klæða þær!
Ég semsagt kann ekki neitt lengur. Nema það sem viðkemur eldhúsinu. Þar er ég á heimavelli. En konan mín er örugglega yfir sig hrifin af því að ég kunni þetta allt þegar ég var 10 ára og kom með nesti í skólann sem ég hafði útbúið sjálfur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst