Nú eru þeir gengnir í salinn, kjörnir og ókjörnir þingmenn. Á fimmtudaginn eiga þeir að kjósa í eigin máli um klúðrið fyrir vestan.
Þrisvar hefur hópur sem kallast kjörbréfanefnd farið á vettvang glæpsins til að telja og setja sig inn í atburðarás sem þegar er documenteruð af öryggismyndavélum. Ekki þótti ríkislögreglustjóra ástæða til þess að blanda sér í leikinn. Þó fannst lögreglustjóranum í umdæminu, væntanlega kunningja héraðsdómarans ástæða til að slá létt á rassinn á kjörstjórninni með sekt upp á heilar 200 þúsund krónur sem nefndarmenn aftóku með öllu að greiða því þeir hefðu ekkert af sér gert. Æjá, það eru fleiri en alþingismenn sem taka að sér að dæma í eigin máli þessa dagana. Þetta mál á eftir að kosta ríkissjóð hundruðir milljóna hvaða ákvörðun sem tekin verður.
Klukkan 7 að morgni 26. september síðastliðinn las héraðsdómarinn og formaður kjörnefndar í norðvesturkjördæmi upp lokatölur. Kjósendur höfðu sagt hug sinn. Að lestri loknum yfirgaf formaðurinn salinn, óvarðann rétt eins og atkvæðin sem búið var að telja, opinn fyrir gestum og gangandi. Lúinn lagði hann eyrað á koddann eftir langa og stranga talninganótt vonandi með bros á vör. Ekki varð svefninn langur, því þegar klukkuna vantaði mínútu í tólf þennan dag arkaði löglærður maðurinn aftur inn í salinn og eyddi þar hálftíma í að róta í atkvæðunum, vitandi það að frá þeim tíma sem hann yfirgaf staðinn og fram til þess tíma þegar aðrir kjörnefndarmenn og umboðsmenn framboða komu á staðinn voru lögbrot í gangi. En rök formannsins voru eftir að upp komst ,,Það er hefð fyrir að gera þetta svona. Svona hefur þetta alltaf verið gert hér.“
Við endurtalningu kom í ljós að ekki var allt sem skyldi og síðar þennan dag duttu fimm nýkjörnir þingmenn út og aðrir fimm tóku þeirra sæti.
Engin leið er að segja til um hvor talninginn var rétt þökk sé löglærðum formanni kjörstjórnar og héraðsdómara, Inga Tryggvasyni. ”Má maður ekki gera mistök” var það fyrsta sem formaðurinn knái lét út úr sér þegar sannleikurinn lá fyrir, orð sem væntanlega munu hljóma í réttarsölum þar sem hann vermir dómarasæti í framtíðinni. Orð sem hann hlýtur að þurfa að taka til greina eftir það sem á undan er gengið. Ingi nýtur fulls trausts dómsmálaráðherra, svo hlýtur að vera því frá henni hefur ekki komið ein einasta stuna þess efnis að hann njóti ekki hennar trausts. Þetta er nú landið sem við lifum í.
Undarlegast af öllu er að alþingi skuli þurfa að taka afstöðu í svo víðáttuvitlausu máli sem fjallar um það sjálft og þingsetu fólks sem þegar er komið með kjörbréf í hendur og telst því til þingmannasveitar landsins. Auðvitað væri réttast að hæstiréttur hefði málið í sínum höndum.
Báðar talningar eru ómarktækar. Lýðræðið snýst um ákvörðun kjósenda en ekki mat þingmanna. Með því að ákveða að láta síðari talninguna gilda er alþingi búið að hvítþvo lögbrot Inga.
Umkosning í kjördæminu getur breytt litrófi þingmanna á alþingi eins og það birtist í dag svo um munar, þingmanna sem hafa tekið lýðræðið í eigin hendur, takandi að sér að túlka vilja fólksins í norðvesturkjördæmi. Eina leiðin til þess að endurvekja traust fólksins í landinu á lýðæðinu er að kjósa aftur á öllu landinu.
Heill forseta vorum og fósturjörð… já eða svoleiðis.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst