Fyrir nokkrum árum síðan ákváðu Bretar að ganga úr Evrópusambandinu með hinni svokölluðu BREXIT þjóðaratkvæðagreiðslu. Líklega versta stórslys í sögu landsins á síðari árum.
Skoðanakannanir sýndu að mikill meirihluti þeirra sem voru yngri en 50 ára vildu ekki úr sambandinu, það voru helst Bretar á efri árum sem kusu gegn sambandinu. Ekki veit ég hversu margir þeirra eru komnir á vit forfeðra sinna, en margir eru þeir. Þannig kusu öldungarnir gegn framtíðarsýn þeirra sem landið erfa, haldnir nostalgíu þess tíma er þeir voru ungir og Winston Churschill gekk um grundu með digran vindil í kjafti.
Stundum fæ ég sömu tilfinningu þegar jarðgöng milli lands og Eyja ber á góma. Þeir sem eru mótfallnir eru gjarnan þeir, sem eiga aðallega fortíð til að ylja sér við en hlusta lítið á þá sem landið skulu erfa. Þetta sama fólk óskapast yfir því að fólk eins og Berglind og Siggi skuli ekki hafa veitingahúsið sitt opið yfir háveturinn svo þau geti fengið sér kjúklingapasta eða vefju. Hækkiði nú í heyrnartækjunum. „Viðskiptin eru mögur yfir vetrartímann af því að samgöngurnar bjóða ekki upp á annað“.
Íslendingum er gjarnt að ræða veðrið milli pólitískra rifrilda, þar sem heimsmálin eru leyst á hverjum degi. Kínverjar aftur á móti ræða um mat og ekkert annað. Þeir mega ekki tala um pólitík og veðrið er alltaf eins.
Vestmannaeyingar tala jafn mikið um samgöngumál og aðrir landsmenn um pólitík. Hér eru allir sérfræðingar í ölduhæð og öldulengd. Þeir vita að suðvestan þýðir meiri sandur í höfnina og svo framvegis. Þetta er umræðan sem eyjaskeggjar þurfa að venja sig við til frambúðar, því lítill er vilji landsfeðranna að bæta þar um. Halda mætti að þeir væru haldnir einhverjum augnsjúkdómi þegar samgöngur Eyjamanna bera á góma, slíkar eru augnhreyfingarnar og líkamstjáning. Byrja þeir.
Það er til einföld aðferð til að kippa þessu í liðinn. Það heitir göng. Mælskir pólitískir snillingar beita öllum brögðum til að forðast umræðuefnið. Besta leiðin er að lofa því fyrir kosningar að rannsóknir verði kláraðar. Öll vitum við hvað það þýðir. Er ekki bara best að kjósa þann sem lofar öllu fögru, eða erum við hálfgerðir svertingjar á þessari eyju?
Í árdaga Hvalfjarðaganga ályktaði Verkfræðingafélag Íslands að mesta stórslys Íslandssögunnar væri í uppsiglingu. Það væri útilokað að gera göng undir Hvalfjörð og ef það tækist myndi enginn nota þau. Lesandi góður. Ef þú sérð einhvern aka veginn um Hvalfjörð er það líklega verkfræðingur sem hefur lítið þor minnugur spádóma sinna.
Pólitíkusar í Eyjum verða að vera bold í þessari umræðu. Tími fagurgala er liðinn. Ekki hlusta á innantóm loforð ár eftir ár. Berjum í borðið og gerum kröfur. Stillum þessum snillingum upp við vegg milli mjalta og látum þá leggja fyrir okkur plan um hvernig gera á hlutina. Lofum því að ef ríkisvaldið standi ekki við sitt muni Eyjamenn sjálfir taka völdin í sínar hendur, láta klára rannsóknirnar, fá verðmiða á verkið og fylgja málinu eftir. Láta eftir sér taka. Nota harðann tón.
Göng milli lands og Eyja yrðu milli 13 og 14 kílómetrar eða tvöföld Hvalfjarðagöng. Lengri þurfa þau ekki að vera.
Allir stjórnmálaflokkar eyjanna ættu að álykta um málið fyrir kosningar. Senda landsherrunum tóninn og láta þá svara.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst