Þorsteinn Gunnarsson.
Til hamingju með stórafmælið Eyjafréttir. Að gefa reglulega út héraðsfréttablað í hálfa öld í litlu samfélagi eins og Vestmannaeyjum er ekkert minna en stór afrek. Ég steig mínu fyrstu skref í blaðamennsku á héraðsfréttablaðinu Fréttum eins og það hét þá, í janúar 1986, þá nýbúinn að ljúka námi í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Gísli Valtýsson var mentorinn minn og allt í öllu í útgáfunni og réð mig til starfa. Hann var einn af eigendunum, ritstjóri og ábyrgðarmaður Frétta og framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar Eyjaprents sem sá um útgáfuna og sjá sjálfur um að prenta, um bókhaldið og hélt þessu gangandi með góðum stuðningi Arnar Sigurmundssonar stjórnarformanns.
Drauma teymið
Margs er að minnast. Þegar þarna er komið við sögu árið 1986 og ég kom til starfa var ein setningarvél á Fréttum þar sem allur texti í blaðið var sleginn inn en Gísli og svo Grímur Gíslason, sem þá var einnig starfsmaður blaðsins, slógu inn texta á ritvél ef setningarvélin var upptekin en hún var mitt helsta verkefni til að byrja með. Í þessu fólst ákveðinn tvíverknaður því ég þurfti líka að slá inn textann frá þeim félögum sem og aðsendar greinar og auglýsingar, svara í síma og skrifa fréttir. Ég hafði reyndar verið í lausamennsku hjá Fréttum með framhaldsskólanum og sá um íþróttaskrif sem var mikið ábyrgðarstarf í okkar góða íþróttasamfélagi þar sem íþróttapólitík Þórs og Týs náði þarna hápunkti. Reyndar kárnaði gamanið þegar ég fór sjálfur að spila í markinu hjá ÍBV í fótboltanum og ég neyddist til að skrifa um leikina sem ég spilaði sjálfur. Ég gætti þess að skrifa aldrei um mína eigin frammistöðu en einhverju sinni tóku þeir félagar fram fyrir hendurnar á mér og skrifuðu lofgrein um markmanninn unga sem hafði staðið sig með prýði.
Ómar Garðarsson leysti Grím svo af skömmu síðar og næstu þrjú árin sá þríeykið, þ.e. ég, Gísli og Ómar, um útgáfu blaðsins, en ég átti svo eftir að koma aftur til starfa síðar. Þetta var draumateymið sjálft. Þetta var sannkallaður uppgangstími, blaðið blómstraði í samkeppni við Dagskrá en síðan komu önnur blöð og fóru. Sú djarfa ákvörðun var tekin 1988 að gefa Fréttir út tvisvar í viku. Auk hefðbundinnar fimmtudagsútgáfu var þriðjudagsútgáfu bætt við. Fyrir vikið varð spretturinn hjá okkur félögum enn meiri.
Með puttann á púlsinum
Margar eftirminnilegar fréttir voru skrifaðar á þessum skemmtilegu árum, við vorum sannarlega með puttann á púlsinum og þurftum stundum að vera skapandi til að finna og búa til áhugaverðar fréttir því það gat verið gúrkutíð í fréttamennskunni. Fréttir gáfu sig út fyrir að vera óháður héraðsfréttamiðill og það höfðum við svo sannarlega að leiðarljósi í okkar fréttaumfjöllun en við þurftum að tipla á tánum á pólitísku jarðsprengjusvæði. Íþróttapólitíkin var enn æsilegri á köflum því ég og Gísli voru grjótharðir Þórarar og vinir okkar í Tý ekki alltaf sáttir og fannst á sig hallað. Sérstaklega man ég eftir miklum látum þegar við skrifuðum frétt um að það stæði til hjá Týrurum að leggja niður handboltann í félaginu. Byggingaframkvæmdir íþróttafélaganna á þessum tíma voru sérstaklega viðkvæmur málaflokkur að skrifa um en við fórum eins og köttur í kringum heitan graut í þeim efnum.
Á þessum gróskumiklu árum í útgáfunni lifði blaðið á auglýsingum og var gefið út í 2700 eintökum og dreift í allar helstu verslanir og sjoppur. Síðar var ráðist í að selja blaðið og voru áskrifendur þegar best lét líklega vel í kringum 2000 manns ef ég man rétt sem verður að teljast vel af sér vikið í samfélagi sem taldi þá ekki meira en ríflega fjögur þúsund manns.
Samstarf okkar Ómars var heilladrjúgt og sérstaklega eftirminnilegt. Ég sérhæfði mig í íþróttafréttum og svo almennum fréttum einnig en Ómar sá um sjávarútveginn og atvinnulífið auk almennra frétta og Gísli skrifaði ýmislegt enda listagóður penni. Stundum kom fyrir að við Ómar tókumst á um plássið í blaðinu. Er mér minnisstætt þegar ég kom einu sinni á ritstjórnina af handboltaleik á miðvikudagskvöldi í Eyjaprent og skrifaði langloku um sigurleik hjá karlaliði ÍBV. Þarna vorum við á lokasprettinum við undirbúning blaðsins og ákváðum að setja það seinna í prentun til að geta komið umfjöllun um leikinn í blaðið. En plássið var frekar takmarkað sem eftir var. Svo hart gekk ég að Ómari að koma umfjölluninni í heild sinni fyrir í blaðinu að minn maður tók sig til og sópaði burt öllum sjávarútvegsfréttum úr umbrotinu á blaðinu í reiðikasti með þeim orðum að forgangsröðunin á blaðinu væri frekar undarleg. Við Gísli brostum í laumi. Ómar var á þessum tíma ekki mesti íþróttaáhugamaðurinn en hann átti nokkru síðar eftir að verða farsæll formaður ÍBV. Erum við Gísli Valtýs á einu máli um að við smituðum Ómar af íþróttabakteríunni svo um munaði sem ÍBV naut svo góðs af.
Tækninýjungar í útgáfunni
Á þeim árum sem ég vann á Fréttum í fyrri lotunni minni þar, ca. árin 1986-1989, urðu byltingakenndar tækninýjungar sem þykja nú kannski ekki merkilegar í dag. Fljótlega eftir að Ómar kom til starfa fékk hann borðtölvu til að skrifa sínar fréttir á en þessi ágæta tölva var ekki með hörðum diski heldur var allt vistað á diskettur. Kosturinn við þær var að ég gat tekið textann þannig beint inn í setningatölvuna í stað þess að þurfa að slá hann allan inn aftur. Þetta var mikil bylting og létti okkur vinnuna og gerði okkur m.a. kleift að koma Fréttum út tvisvar í viku. Á þessum tíma var allur texti keyrður úr setningatölvunni í langa spalta og allt umbrot fór fram í höndunum. Mér fannst umbrotsvinnan ansi skemmtileg og þar var Gísli að sjálfsögðu minn mentor, þetta var skapandi vinna, að nota skæri og límstifti til að setja upp blaðið.
Sem blaðamenn þurftum við Ómar því að sjá um allt ferlið. Taka viðtöl, skrifa fréttir, sjá um myndatöku og framkalla, brjóta blaðið um í höndunum, filma blaðið og svo tók Gísli við og setti á prentplötu og svo var blaðið prentað. Á fimmtudögum sátum við með t.d. 16 síðna blað í höndunum en þurfum að raða blaðinu saman í höndunum eftir það kom úr prentvélinni hjá Gísla áður en því var dreift í sjoppurnar. Þetta var afslappandi gæðastund eftir allt stressið í kringum útgáfuna á lokasprettinum. Ýmsar hjálparkokkar komu til að aðstoða okkar eins og t.d. Oddur Júl og fleiri góðir.
Önnur eftirminnileg tæknibylting var þegar faxtækið góða kom á ritstjórn Frétta, líklega í kringum 1987. Nú var hægt að senda okkur greinar, auglýsingar og skilaboð í gegnum þetta galdratæki hvaðanæva að úr heiminum. Þetta létti okkur vinnuna enn frekar.
Samkeppni á markaðinum
Árið 1989 kvaddi ég Gísla og Ómar og fór í fjölmiðlanám í Svíþjóð en skrifaði pistla í blaðið annað slagið. Þegar ég flutti heim úr námi gaf ég út mitt eigið blað sem fékk nafnið TV og fór því í samkeppni við mína gömlu félaga. Þetta voru eftirminnilegir mánuðir og gekk á ýmsu. Á þessum tíma voru því þrjú héraðsfréttablöð gefin út vikulega í Eyjum, þ.e. TV, Fréttir og Dagskrá. Hvergi á landinu var önnur eins gróska í útgáfu héraðsfréttablaða. Þessu harki gafst ég svo upp á og Gísli og Ómar fengu mig aftur til starfa á Fréttum í kringum 1993. Enn bættist við tækninýjungarnar því um þetta leyti voru komnar öflugar tölvur og allt umbrot fór fram í þeim en ekki með því að líma spalta á blað. Þetta notaði ég á mínu blaði og var svo komið af stað hjá Fréttum. Þetta var líklega stærsta byltingin í útgáfubransanum fyrr og síðar. Einnig fækkaði handtökunum þegar hætt var að keyra út filmur heldur var umbrotið keyrt beint út á prentplöturnar. Þannig varð allt ferlið einfaldara og þægilegra. Einnig man ég eftir byltingunni þegar fyrsta stafræna myndin birtist á forsíðu Frétta á þessum árum sem gerði það að verkum að filmurnar heyrðu sögunni til og ekki þurfti að framkalla lengur í myrkraherberginu okkar. Þetta eru sannarlega breyttir tímar í dag þar sem allt er orðið stafrænt.
Bruninn mikli
Þegar ég fer í huganum yfir útgáfu Frétta þessi góðu 7 til 8 sem ég var þar að störfum sem blaðamaður og starfsmaður Eyjaprents þá er 6. október 1988 líklega eftirminnilegasti dagurinn. Þennan fimmtudag var blaðið langt komið í prentun, átti bara eftir prenta kápuna með forsíðunni og baksíðunni og umbrotið var klárt. Á síðustu stundu fáum við veður af því að eldur hafi kviknað í gömlu slökkvistöðinni við Hilmisgötu enda fóru brunaútköll ekki fram hjá nokkrum manni á þessum árum þegar „lúðurinn“. Ég man að ég þusti á vettvang, tók myndir sem þurfti að framkalla og ég og Ómar skrifuðum fréttir sem fóru bæði á forsíðu og baksíðu blaðsins þennan dag og þurfti að sópa öðrum fréttum út í staðinn. Þetta var stórviðburður á þessum tíma en til allrar hamingju slasaðist enginn. Útgáfunni seinkaði ekki mikið þrátt fyrir þessa óvæntu uppákomu.
En þennan dag var adrenalínið í botni. Í Fréttum sagði um brunann að rétt fyrir kl. 11 var slökkviliðið kallað að lögreglustöðinni sem þá stóð í björtu báli. Mikinn reyk lagði frá þakinu. Samkvæmt heimildum blaðsins var talið að fangi sem var í fangaklefa á lögreglustöðinni hafi kveikt í dýnu sinni og breiddist eldurinn hratt út. Þarna náði ég m.a. eftirminnilegri ljósmynd af Tóta í Geisla hlaupandi út af slökkvistöðinni með stóra innrammaða ljósmynd í fanginu, þegar betur var að gáð var þetta mynd af þáverandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur.
Ef upp úr stendur frábært samstarf við vini mína Ómar og Gísla. Ég á þeim svo óendanlega mikið að þakka. Við töluðum ekki mikið um tilfinningar en þarna lærði ég að vinna og axla ábyrgð, þetta var 50 tíma vinnuvika og svo bakvakt aðra hverja helgi og þá var alltaf nóg um að vera. Við vorum eins og vel smurð vél, allir með sín hlutverk á hreinu og aldrei kom rof í útgáfuna. Við lögðum alúð okkar og metnað í útgáfuna. Gísli og Ómar héldu svo þessu harki áfram og Fréttir héldu áfram að blómstra undir þeirra stjórn. Þrátt fyrir að Ómar hafði verið kominn á eftirlaun var svo kallað í hann í ritstjórastólinn á ný til að bjarga skútunni. Það segir sitt um traustið sem hann skapaði sér í blaðamennskunni og samfélaginu. Við félagarnir brölluðum ýmislegt á þessum árum. Ég kom þarna heim ferskur heim úr námi fullur af alls konar hugmyndum um efnistök og fleira. Ný prentvél kom í hús og var þá hægt að prenta blaðið í meiri lit en áður sem einnig var bylting. Við vorum virkir þátttakendur í Samtökum héraðsfréttablaða og fórum reglulega í skemmtiferðir með okkar konum til höfuðborgarinnar.
Teningunum kastað
Hvað sjálfan mig varðar þá var teningunum kastað og ég fór í fjölmiðlanám og vann síðar á Stöð 2 og Sýn. Þarna fékk ég einnig brennandi áhuga á pólitík og stjórnsýslu sem leiddi mig út á þær brautir síðar á starfsævinni. Launin voru nú kannski ekki þau hæstu í bransanum á Fréttum en fyrir vikið tók ég að mér alls konar aukaverk til að drýgja tekjurnar fyrir fjölskylduna eins og að ritstýra ýmsum blöðum, m.a. fyrir íþróttahreyfinguna eins og þjóðhátíðarblaðið og fleira skemmtilegt.
Hlutverk héraðsfréttamiðla, sem flytja fréttir úr sínu nærumhverfi, skal aldrei vanmeta en það er stundum áskorun vegna nálægðarinnar í samfélaginu. Nú hefur þetta færst meira yfir á netið og prentútgáfan á undir högg að sækja. En Fréttir og síðar Eyjafréttir, eru ómetanleg heimild um sögu Vestmannaeyja í hálfa öld, blaðið var stofnað 1974 eða ári eftir gos.
Ég óska öllum þeim sem hafa komið að útgáfunni í gegnum tíðina til hamingju með stórafmælið, Gísli og Ómar að sjálfsögðu þar fremstir í flokki. Megi Eyjafréttir lifa og dafna í framtíðinni bæði á pappír og á vefnum.
Þorsteinn Gunnarsson
borgarritari og fyrrverandi blaðamaður á Fréttum
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst