Gullfiskaeldi á gostímanum
7. júlí, 2023

Gullfiskar Dollýar og Þórs Vilhjálmssonar urðu eftir í íbúð þeirra í Eyjum gosnóttina og bjuggu þar í búri sínu allan tímann sem húsbændur þeirra og eigendur voru fjarverandi þegar Heimaeyjargosið varði. Þór og félagar lönduðu annað slagið í Eyjum og hann skrapp þá heim til að gefa eldisfiskunum sínum. Þeir kvörtuðu  ekki en fögnuðu goslokum innilega líkt og aðrir.

Eyjafréttir birta í nýútkomnu og glæsilegu goslokablaði sínu viðtal við Þór um endurreisn atvinnulífs eftir hamfarirnar. Plássins vegna varð að skera aftan af textanum þann hluta þar sem vikið var að sjálfu gosinu og afleiðingum þess á líf og starf fjölskyldunnar. Hér er viðtalið birt í heild sinni.

„Atvinnulífið tók fljótar og betur við sér eftir gos en hefði mátt ætla. Strax á árinu 1974 var flest komið hér í gang og sumt á fullan skrið. Ég var þá verkstjóri í Fiskiðjunni og fryst voru um þúsund tonn af loðnu sem var met. Loðnuvinnslan var öllu frumstæðari þá en nú þekkist. Fjórir tugir kvenna stóðu við færiband og tíndu karlfiskinn úr aflanum. Verðmætið var fólgið í hrognafullri kvenloðnunni,“

segir Þór Vilhjálmsson, sjómaður til áratuga en á síðari árum starfsmaður Vinnslustöðvarinnar í ýmsum hlutverkum; móttökustjóri, verkstjóri, starfsmannastjóri og allsherjarreddari.

„Árið eftir gos markaði líka tímamót að því leyti að þá hófst fyrir alvöru vinnsla loðnuhrogna, frumkvöðlaverkefni sem átti rætur að rekja til tilraunastarfsemi í kjallara Vinnslustöðvarinnar 1972. Gosið setti strik í reikninginn en þráðurinn var tekinn upp að nýju strax eftir gos.

Menn gerðu sér grein fyrir því að mikil verðmæti væru fólgin í frystum loðnuhrognum, vandinn var að ná utan um framleiðsluferlið. Þar hafði forgöngu Magnús Muggur Bjarnason frá Garðshorni, starfsmaður útgerðarfélagsins Samfrosts, og við Torfi Haraldsson vorum með honum í þessu.

Tveir geymar voru settir upp í Friðarhöfn og þriðji geymirinn hafður á vörubílspalli. Við dældum blóðvatni úr lestum bátanna og fluttum það í geymana í Friðarhöfn þar sem hrognin voru látin setjast. Hrognin voru síðan flutt í kör í fiskvinnsluhúsum og hreinsuð, sem var mikið vandaverk. Nothæfar skiljur til verksins voru smíðaðar í vélsmiðjunni Trausti í Reykjavík en vinnslan gekk samt brösuglega framan af.

Menn náðu smám saman tökum á ferlinu og til varð útflutningsvara sem skilað hefur miklu um dagana til sjávarútvegsins og íslensks þjóðarbús. Japanir voru og eru enn langumsvifamestu kaupendur frystra loðnuhrogna.“

Staðgreiðsla skatta ekki bændum að skapi?

„Ég byrjaði í Vinnslustöðinni 1979. Fyrirtækið átti þá sjálft enga báta heldur fékk fisk af viðskiptabátum sínum til vinnslu. Þetta var fyrir daga kvótakerfisins og stærstur hluti aflans barst á land í mars og apríl. Við reyndum að fletja allan sólarhringinn og fengum fólk utan úr bæ til liðs við okkur. Ég man til dæmis að starfsfólk af sjúkrahúsinu kom á frívöktum til vinnu á nóttunni.

Fiskurinn var saltaður og síðan geymdur til pökkunar. Á þessum tíma var ekki farið að pakka fyrr en að vertíð lokinni. Allt tiltækt geymslurými var notað, meðal annars voru saltfiskkör í gúanóþrónni.

Mest reyndi á mannskapinn í maímánuði. Þá fóru bændur í vertíðarvinnunni heim til að sinna sauðburði og skólakrakkar voru enn í vorprófum. Bændur hættu svo nær alveg að koma til Eyja á vertíð eftir að staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp 1988. Staðgreiðslan virtist ekki vera þeim að skapi!“

Verkstjórafundur um afnám bjórbanns

Kapphlaupið við tímann var mál málanna í fiskvinnslunni þegar svo mikið barst á land að illmögulegt var að hafa undan. Þór segir að Vinnslustöðin hafi tekið við 400 til 600 tonnum af óslægðum fiski daglega í aflahrotum og því hafi þurft að láta hendur standa fram úr ermum áður en afli næsta dags kæmi í hús.

„Mikið var hengt upp til þurrkunar, þar á meðal ufsi fyrir Nígeríumarkað. Ufsinn var á þessum árum unninn og seldur sem svokallaður sjólax til Þýskalands. Eftir hrygningu gekk það ekki, þá var ufsinn þurrkaður en fyrst afhreistraður með hrossaklórum.

Mikil breyting varð í starfsemi og vinnulagi Vinnslustöðvarinnar þegar farið var að flytja út ferskan fisk í gámum. Ein útgerðin samdi til að mynda um að gert væri að fiski úr afla hennar í einn gám sem hún seldi síðan úr landi en Vinnslustöðin vann úr því sem eftir var.

Í minningunni einkenndist vertíðarlífið af stöðugu kapphlaupi við að bjarga hráefni og dugði þá oft ekki sólarhringurinn. Allt að 80 starfsmenn Vinnslustöðvarinnar voru aðkomufólk sem bjó í verbúð hennar. Þar gat verið fjörugt og ég man að stjórnendur höfðu áhyggjur af því sem kynni að gerast þegar bjórbanninu yrði aflétt 1. mars 1989. Boðaður var sérstakur verkstjórafundur til að búa menn undir bjórdrykkju á vinnustaðnum og hvernig bregðast ætti við því. Þegar til kom breyttist nákvæmlega ekkert. Áhyggjurnar reyndust ástæðulausar.

Fyrst áfengi er nefnt þá kemur upp í hugann þegar ég sjálfur var skólastrákur og gefið var frí til að við gætum tekið þátt í að bjarga verðmætum í aflahrotum. Ef okkur var sagt að mæta eftir kvöldmat með nesti sem dygði í tvær kaffipásur blasti við að unnið yrði langt fram á nótt. Ef það gerðist um helgar var ekki endilega kaffi í brúsum karlanna. Það þótti ekkert stórmál að þeir skelltu í sig slurk af vodka og héldu svo áfram að fletja fiskinn.“

Í samninganefnd með Didda fiðlu

Þór Vilhjálmsson var stýrimaður á Jörundi III þegar gaus á Heimaey, báti sem fljótlega var nefndur Árver VE-355. Til stóð að sigla með fisk og selja í Þýskalandi en ákveðið að landa frekar aflanum heima. Annars hefði Þór ekki upplifað upphaf gossins, siglingu með 180 Eyjamenn til Þorlákshafnar og búslóðaflutninga næstu daga.

„Strax eftir þetta fórum við að búa bátinn til loðnuveiða og byrjuðum á loðnu 12. febrúar en tókum fyrst þátt í að leita að Sjöstjörnunni frá Keflavík sem fórst við suðurströndina og með henni tíu manna áhöfn og eiginkona skipstjórans. Leitin var ein sú umfangsmesta sem um getur fyrr og síðar.

Við fengum um 2.800 tonn af loðnu á vertíðinni 1973 og um 500 tonn af netafiski og lönduðum í Grindavík. Flottur tími fjárhagslega en afar erfiður samt vegna aðstæðna okkar. Það var heilmikið vesen að finna húsaskjól og við sjómennirnir gátum ekki tekið þátt í því. Eiginkonur okkar og fjölskyldur urðu að glíma við húsnæðisvandann. Við fengum að lokum inni á efri hæð húss í Keflavík þar sem Alfreð Gíslason bæjarfógeti hafi embættisskrifstofu sína. Þar voru sett upp skilrúm í hvelli og búin til fjögur herbergi. Þarna voru fjórar fjölskyldur frá Eyjum og sameinuðust um eitt eldhús og eitt baðherbergi. Híbýlin stóðu fyllilega undir nafni sem flóttamannabúðir.

Aldrei kom annað til greina en að fara aftur heim. Ég var alkominn til Eyja í maí en eiginkonan Dollý ­ – Sólveig Adólfsdóttir kom með börnin tvö í júlí. Blokkaríbúðin okkar slapp alveg við tjón af völdum gossins og meira að segja bjuggu þar gullfiskarnir okkar í búri. Ég kom nokkrum sinnum til Vestmannaeyja til að landa á gostímanum og skrapp þá heim til að heilsa upp á gullfiskana og gefa þeim að éta. Þeir höfðu yfir engu að kvarta.

Ég var í landi um skeið og var þá gerður að verkstjóra í hreinsun bæjarins. Það var mikið og stórt en afar þarft verkefni. Okkur fannst liggja beint við að setja upp vaktavinnukerfi í hreinsuninni til að bæta afköstin. Við höfðum heldur ekki áhuga á að vera nánast eingöngu í dagvinnu í verkinu. Við Sigurður Rúnar Jónsson – Diddi fiðla vorum fengnir til að ganga til samninga við Viðlagasjóð um málið.

Handan borðs voru Guðmundur Karlsson, framkvæmdastjóri Viðlagasjóðs, og  Muggur í Garðshorni, sá er síðar var samstarfsmaður minn í loðnuhrognunum. Við náðum því í gegn að farið var að hreinsa bæinn af ösku og gosefnum í vaktavinnu. Það var til mikilla bóta.

Aðstæðurnar voru ömurlegar fyrst eftir heimkomuna og við héldum jól 1973 í bæ sem var svartur og myrkvaður að stórum hluta. Ein lítil verslun var opin og matseðillinn á heimilinu alla daga einkenndist af því sem þar var til hverju sinni.

Svo fór landið að rísa í öllum skilningi en eitt vil ég nefna sem máski skýrist af Heimaeyjargosinu fyrir hálfri öld og það er að meðalaldur fólks í Eyjum er yfir landsmeðaltali. Um 12% landsmanna eru 67 ára og eldri en í Vestmannaeyjum er hlutfallið um 14%. Sennilegasta skýringin gæti verið sú að yngra fólkið hafi ekki skilað sér til baka í sama mæli og það sem var á miðjum aldri.“

  • Addi í London tók myndina af Þór og trillunni sem hann nefndi eftir tengdaföður sínum, Dolla í Sjónarhól.

 

Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
Forsida EF 3 Tbl 25
3. tbl. 2025

NÝBURAR

76e2af77 02d9 48eb B73a 24c32e2403ac
4. janúar 2025
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Katrín Rós Óðinsdóttir og Sæþór Örn Garðarsson.

NÝBURAR

Drengur
3. desember 2024
Drengur
Kaupmannahöfn
Selma Jónsdóttir og Matthías Óskarsson

NÝBURAR

Drengursnorrason
23. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Svanhildur Eiríksdóttir og Sindri Sigfússon

NÝBURAR

Lovisu
8. október 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Lovísa Jóhannsdóttir og Jökull Andri Sigurðsson

NÝBURAR

462560821 8781643355208571 772013136079801246 N
17. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Aníta Björk Friðriksdóttir og Sigurbjörn Þórður Árnason.

NÝBURAR

Tandri
13. september 2024
Drengur
Hsu, Vestmannaeyjum.
Dagur Arnarsson og Svava Tara Ólafsdóttir.

NÝBURAR

Bfec0ecf E4f8 466a 89f9 94c607ba1ec5
24. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Óskar Elías Zoega Óskarsson og Díana Ólafsdóttir

NÝBURAR

Natan Orn
14. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Þórey Lúðvíksdóttir og Elías Skæringur Guðmundsson

NÝBURAR

F4c5612c Ae8a 4d77 B83d C5f14f2007fe
26. september 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Þorgeir Þór Friðgeirsdóttir og Elín Inga Halldórsdóttir

NÝBURAR

Moller
20. september 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
William Thomas Möller og Jenný Guðnadóttir.

NÝBURAR

E50c5f3f Ddd5 4ee2 8685 Dad7e0e417ad
2. ágúst 2024
Stúlka
Fæðingadeild HVE, Akranes
Sigurdís Egilsdóttir og Gunnlaugur Örn Guðjónsson

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström

NÝBURAR

IMG 2282 940x940
29. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir og Felix Örn Friðriksson
Mest lesið
viðburðir
Vsv Logo Blue Vsv
29. apríl 2025
17:00
Aðalfundur Vinnslustöðvarinnar
Aðalfundur ÍBV Íþróttafélags
29. apríl 2025
17:00
Aðalfundur ÍBV Íþróttafélags
Ársþing ÍBV
13. maí 2025
20:00
Ársþing ÍBV
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst