Menn óðu hér eld og brennistein fyrir samfélagið 
19. ágúst, 2023
Tekin í ágúst 1974. Þjóðhátíð á Breiðabakka.

Þjóðhátíð Vestmannaeyja var haldin fyrstu helgina í ágúst árið 1973 eins og löng hefð er fyrir. Hún fór þó ekki fram í Herjólfsdal eins og að vanda, að þessu sinni var ekki unnt að halda hana í Herjólfsdal vegna ösku sem lá yfir dalnum enda eldgos nýafstaðið á Heimaey. Þrátt fyrir gosið var ákveðið að þjóðhátíðin skyldi ekki falla niður og Knattspyrnufélagið Týr sá um þjóðhátíðarhaldið eins og til stóð. Þjóðhátíðin var að þessu sinni haldin á Breiðabakka suður á Eyju. Fyrir hátíðina voru settar upp skreytingar, danspallur, leiksvið og gosbrunnur settur á hamrana fram við sjó, en gosbrunnur var aðalsmerki Týs á Þjóðhátíð. Veitingatjaldið var að sjálfsögðu reist og götur til þess að tjalda við hústjöldum. Þá var jafnframt ákveðið að þjóðhátíðin skyldi standa aðeins einn dag að þessu sinni til þess að hreinsun á ösku í bænum og önnur nauðsynleg störf myndu ekki tefjast lengur. Milli eitt og tvö þúsund manns sóttu þjóðhátíð Vestmannaeyja að þessu sinni og þótti takast vel til. Meðal þess sem var á dagskrá varð að sjálfsögðu hefðbundin setning með bænarorðum og tónlistaratriðum. Þá tók við pokahandbolti, eggjaboðhlaup og fleira áður en barnadagskrá hófst. Kvöldvakan hófst svo með fjöldasöng áður en nokkrir skemmtikraftar stigu á stokk sem flestir voru heimamenn og náði hámarki þegar Árni Johnsen flutti þjóðhátíðarlagið „Við höldum þjóðhátíð“ en Árni samdi bæði lag og texta með skömmum fyrirvara enda aðdragandi hátíðarinnar ekki langur. Klukkan 23 var síðan varðeldur og hljóp Sigurður Reimarsson brennu kóngur einn hring á Breiðabakka og tendraði síðan bál. Var fjöldasöngur við varðeldinn í eina klukkustund, en þá hófst glæsileg flugeldasýning og síðan léku Logar, Eldar og fleiri fyrir dansi fram undir morgun. Vinna hófst síðan aftur í Eyjum klukkan eitt eftir hádegi daginn eftir.  

Umgjörðin var glæsileg á hátíðinni 1973 þó einungis væri tjaldað til einnar nætur.

Þessi þjóðhátíð skipti máli
Týrarinn, Magnús Birgir Guðjónsson eða Biggi Gauja eins og hann er best þekktur hefur komið að undirbúningi Þjóðhátíðar Vestmannaeyja frá árinu 1969. Hann var í Þjóðhátíðarnefnd árið 1973 og tók þátt í undirbúningnum fyrir þessa sérstöku hátíð. „Ég var fluttur til baka og það kom aldrei neitt annað til greina en að halda Þjóðhátíð. Þetta var breiður hópur fólks sem sá um hátíðina þarna og mikil vinna sem fór í að undirbúa þetta þó einungis væri tjaldað til einnar nætur.“ Biggi segir það að sjálfsögðu hafa þótt sérstakt að standa í öllu þessu umstangi á meðan að bærinn væri á kafi og nóg annað að gera. „Þetta var svo lýsandi fyrir andann sem var í gangi í Eyjum. Það átti að byggja bæinn aftur og það kom ekkert annað til greina og þá var náttúrulega ekkert annað í stöðunni en að halda Þjóðhátíð.“ Hann segir sérstakan anda hafa verið á hátíðinni. „Það var mjög einbeittur vilji hjá fólki að hafa gaman í skugga alls þess sem gengið hafði á. Bátarnir sem voru á sjó komu í landi til að sjómenn gætu tekið þátt í hátíðinni. Það komu nokkrir ofan af landi til að mæta á hátíðina en þeir voru ekki margir.“ Birgir segir það líka hafa verið mikilvæg skilaboð útávið að lífið yrði aftur venjulegt í Vestmannaeyjum. „Það er auðvitað ómögulegt að fullyrða en ég held að þessi þjóðhátíð hafi skipt máli í því að halda þessari baráttu gangandi.“  

Hafði meiri áhuga á brennunni
Þjóðhátíð var aftur haldin á Breiðabakka í ágúst 1974 en þá með hefðbundnu þriggja daga sniði. Þórarinn, Friðbjörn Ólafur Valtýsson eða Bibbi eins og hann er oft kallaður kom að undirbúningi hátíðarinnar en faðir hans Valtýr Snæbjörnsson var formaður þjóðhátíðarnefndar Þórs á þessum tíma. „Það var svo mikill hugur í öllum og þessir frasar „Heima á ný“ og „Eyjar munu rísa“ ómuðu út um allt og menn óðu hér eld og brennistein fyrir samfélagið og það munaði ekkert um að henda upp einni Þjóðhátíð.“ Bibbi segir það hafa gert þessa hátíð sérstaka var sú staðreynd að verið var að halda upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og 100 ára afmæli Þjóðhátíðarinnar sem varð náttúrulega upphaflega til í kringum 1000 ára afmæli byggðar í landinu. „Það voru heiðursgestir á hátíðinni að því tilefni og þeir fluttu þeir ávörp forseti Íslands, herra Kristján Eldjárn og Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri Reykjavíkur. Einnig bauð bæjarstjórn Vestmannaeyja Richard Beck til hátíðarinnar hann var frægur Vestur-Íslendingur. Ég var alveg rólegur yfir þessum mönnum öllum saman. Ég hafði meiri áhuga á brennunni, hún var mitt aðalverkefni á þessum tíma. Það var annars ótrúlegt hvað menn lögðu á sig að koma þessu upp en eljan og viljinn í Eyjum var bara svo mikill á þessum tíma,“ sagði Friðbjörn aðspurður um hátíðina 1974. Það vakti athygli blaðamanns að fram kemur í  Fréttum (síðar Eyjafréttum) í aðdraganda hátíðarinnar að mikil eftirspurn sé eftir hvítum tjöldum þar sem margir hafi tapað sínum tjöldum undir hraun. 

Bjarni Ólafur Guðmundsson, Hreimur Örn Heimisson og Magnús Birgir Guðjónsson.

Tjörn, bátur og danspallur í láni
Árið 1975 var hátíðin aftur í höndum Týrara á Breiðabakka. „Þetta gekk náttúrulega allt út á það að gera betur en hinir,“ sagði Biggi Gauja aðspurður um hátíðina 1975. „Þá byggðum við stóran danspall úr timbri og þetta var ekkert flókið í þá daga. Við fengum bara allt timbrið lánað og skiluðum því aftur í timbursöluna eftir hátíð, það var ekkert verið að flækja hlutina. Við fórum líka í það þetta ár að útbúa tjörn á miðju svæðinu og komum okkar gosbrunni fyrir þar. Það tók svolítinn tíma að græja það en einhvern veginn hafðist þetta. Mesta vesenið á okkur fyrir þessa hátíð var líklega báturinn sem við drösluðum á brennuna. Hann var dreginn frá Friðarhöfn inn í Klauf og þar var hann var sagaður í þrjá parta í fjörunni. Það þurfti margar hendur og stórar vélar til að koma þessu upp úr fjörunni og upp á brennustæðið.“ Brennustæðið á Breiðabakka var nálægt þeim stað þar sem nú má finna upplýsingaskilti um Surtsey. „Þetta var ógurleg vinna, bæði að koma bátnum í land og svo að saga hann og svo að koma honum upp úr fjörunni þetta tók marga daga. En þetta var allt í góðum gír,“ sagði Biggi og glotti. 

Þétt setinn Breiðabakki.

Vildum ekki missa niður hátíðina
Veðrið var ekki að hjálpa til á þessari þjóðhátíð. „Það rigndi eins og andskotinn á þessari þjóðhátíð eins og öllum sem haldnar voru á Breiðabakka. Ingimar Eydal var með hljómsveit á sviði á laugardagskvöldi og þegar hann var búinn að hella þrisvar sinnum úr orgelinu þá var ballinu slúttað. Á sunnudag var farið með hátíðina inn í samkomuhúsið. Þá var allt rignt niður og ekkert vit í að halda áfram úti.“  

Birgir segir þessar Breiðabakkahátíðir ekki hafa verið mikla fjáröflun fyrir félögin. „Þær gáfu ekkert sérstaklega mikið í aðra hönd, það skipti máli að halda áfram, við vissum að við færum aftur inn í dal og vildum ekki missa niður hátíðina.“ 

Þau er mörg verkefnin sem Bibbi hefur tekið að sér á þjóðhátíð en eitt þeirra er að merkja tjöldin.

Steyptu danspall á Breiðabakka
Fyrir þjóðhátíð 1976 réðust Þórarar í það að steypa danspall á Breiðabakka. „Þetta var bara ein af þessum hugmyndum sem kom upp og það var ekkert ómögulegt í þá tíð.“ Þó svo að einungis hafi verið dansað á pallinum á einni Þjóðhátíð þá var það ekki hans eina hlutverk að sögn Bibba. „Það var einhver útgerðin sem átti þetta tún á þessum tíma og þessi pallur endaði á að vera nýttur sem plan við netaviðgerðir. Við Þórarar tókum líka upp á því að halda þarna Jónsmessuhátíð í nokkur ár á eftir, þetta voru ágætis samkomur og gáfu þokkalegan aur í kassann,“ sagði Bibbi og brosti. 

Það vakti athygli blaðamanns að einn af auglýsum dagskrárliðum hátíðarinnar 1976 var brúðkaup: „Gefin verða saman Harpa Rútsdóttir og Georg Þór Kristjánsson.” Biggi mundi vel eftir þessum „dagskrárlið“. „Í minningunni var þetta eina góða veðrið á Breiðabakka öll þessi ár þegar Goggi vinur minn giftist Hörpu þá var alveg blíða annars rigndi bara út í eitt þarna suðurfrá.“ 

Herjólfsdalur kallar
Í 11. tölublaði Fylkis í september 1976 sem prentað var rúmum mánuði eftir síðustu Þjóðhátíðina á Breiðabakka var birt frétt undir yfirskriftinni „Herjólfsdalur kallar“ og hljóðaði svo, “..byrjað er að tyrfa í Herjólfsdal og er unnið af fullum krafti í dag. Verkinu verður haldið áfram á laugardaginn kemur. Bærinn leggur til torfið, bílstjórar gefa akstur með það í Dalinn og Fiskimjölsverksmiðjurnar gefa fiskimjöl til áburðar. Öll vinna verður í sjálfboðaliðsvinnu. Er að vonum mikill áhugi á málinu meðal bæjarbúa.“   

Rígurinn náði ekki inn í dal
„Það voru allir sammála um það að nú væri tími til að fara að kíkja á dalinn og farið var að huga að flutningi. Það var náttúrlega ógurlegt verkefni þarna fram undan en fólk hafði svo sem lítið annað gert síðustu ár en að moka vikur. Dalurinn var fullur af vikri, sáning hafði gengið ágætlega á einhverjum köflum en annarsstaðar var bara hreinsað og tyrft. Tjörnin var líka full af vikri og mold og það var allt mokað og hreinsað og þá var steyptur botn í tjörninni. Það breytti miklu upp á skreytingar í tjörninni. Þetta var allt saman alveg ógurleg vinna sem stóð allt sumarið 1977 og þá var ekki farið að pæla í þessum hefðbundnu þjóðhátíðarstörfum sem átti að sjálfsögðu eftir að vinna eins og smíða svið og annað.“  

Birgir segir þrekvirki hafa verið unnið í Herjólfsdal í aðdraganda hátíðarinnar 1977. „Þetta var mjög gott samstarf félaganna beggja og það var það fallega í þessu að mér fannst þessi rígur aldrei ná niður í dal þó að hann mætti finna víða annarsstaðar. Það var þvílíkt afrek að klára þetta og sem betur fer var ákveðið að gera það. Það var bara drifið í hlutunum og allir mættu og reyndu að gera sitt besta. Samstarfið var magnað það var enginn að velta sér upp úr neinu öðru en að koma sér niður í dalinn. Það voru algerir jaxlar í þessum félögum sem stóðu í þessu það var enginn að pæla í því hvað klukkan var orðin eða hvað var mikið eftir það var bara unnið að settu marki.“ Það þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram en öll þessi vinna sem talin er hér að ofan var unnin í sjálfboðavinnu. 

Líkindi með hátíðunum 1977 og 2022
Birgir segir hátíðina sjálfa ekki síður hafa verið eftirminnilega. „Það var ekki hægt að fá betra veður og ég gleymi aldrei þessari hátíð. Það var alger blíða og sól alla hátíðina. Gæslan hafði mestar áhyggjur af því að þeir sem sofnuðu utandyra yrðu sólbrenndir. Það var alveg ótrúlegur andi yfir þessari hátíð, fólkið var svo ánægt að komast aftur í dalinn. Það var svo einbeittur vilji að gleðjast saman í Herjólfsdal.“ Birgir segir margt hafa verið líkt með hátíðinni 77 og í fyrra. „Já, ég skynjaði alveg svipaða gleði. Þó svo að fólk hafi bæði í covid og eftir gos lagt sig fram um að halda Þjóðhátíð með breyttu sniði þá var fólk alveg ofboðslega ánægt að fá Þjóðhátíð aftur í Herjólfsdal þar sem hún á heima.“ 

Það var ekki hægt að segja skilið við þá félagana án þess að spyrja þá út í það hvað þeir telji að valdi því að Þjóðhátíð hafi staðið að sér allar þær þjóðfélagsbreytingar og áföll sem hafa á henni hafa dunið í gegnum tíðina. Þeir tóku báðir í svipaðan streng og töluðu um þann ótrúlega hóp af fólki sem hefur staðið á bakvið hátíðina í gegnum tíðina og svo auðvitað hafi það verið mikill drifkraftur hér á árum áður að gera betur en hitt félagið á undan með öllum ráðum. Það var ekki laust við það að blaðamaður og viðmælendur báðir væru komnir í þjóðhátíðargírinn eftir þessa fróðlegu yfirferð.

Myndarleg tjaldborg á Breiðabakka.
Búferlaflutningar á Þjóðhátíð 1974.

Greinina má einnig lesa í 15. tbl. Eyjafrétta.

Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
4. tbl. 2025
4. tbl. 2025

NÝBURAR

76e2af77 02d9 48eb B73a 24c32e2403ac
4. janúar 2025
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Katrín Rós Óðinsdóttir og Sæþór Örn Garðarsson.

NÝBURAR

Drengur
3. desember 2024
Drengur
Kaupmannahöfn
Selma Jónsdóttir og Matthías Óskarsson

NÝBURAR

Drengursnorrason
23. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Svanhildur Eiríksdóttir og Sindri Sigfússon

NÝBURAR

Lovisu
8. október 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Lovísa Jóhannsdóttir og Jökull Andri Sigurðsson

NÝBURAR

462560821 8781643355208571 772013136079801246 N
17. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Aníta Björk Friðriksdóttir og Sigurbjörn Þórður Árnason.

NÝBURAR

Tandri
13. september 2024
Drengur
Hsu, Vestmannaeyjum.
Dagur Arnarsson og Svava Tara Ólafsdóttir.

NÝBURAR

Bfec0ecf E4f8 466a 89f9 94c607ba1ec5
24. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Óskar Elías Zoega Óskarsson og Díana Ólafsdóttir

NÝBURAR

Natan Orn
14. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Þórey Lúðvíksdóttir og Elías Skæringur Guðmundsson

NÝBURAR

F4c5612c Ae8a 4d77 B83d C5f14f2007fe
26. september 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Þorgeir Þór Friðgeirsdóttir og Elín Inga Halldórsdóttir

NÝBURAR

Moller
20. september 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
William Thomas Möller og Jenný Guðnadóttir.

NÝBURAR

E50c5f3f Ddd5 4ee2 8685 Dad7e0e417ad
2. ágúst 2024
Stúlka
Fæðingadeild HVE, Akranes
Sigurdís Egilsdóttir og Gunnlaugur Örn Guðjónsson

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström

NÝBURAR

IMG 2282 940x940
29. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir og Felix Örn Friðriksson
Mest lesið
viðburðir
Ársþing ÍBV
13. maí 2025
20:00
Ársþing ÍBV
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst