Unnið hefur verið að uppbyggingu kollagenverksmiðju í Vestmannaeyjum sem á að framleiða kollagen úr roði en það er fiskþurrkunarfyrirtækið Langa ehf. sem stendur að því. Undirbúningurinn að verkefninu hefur staðið yfir í tvö ár en stefnan er að ræsa verksmiðjuna í mánuðinum. Það er fótboltakappinn og Hornfirðingurinn Alex Freyr Hilmarsson sem er framleiðslustjóri verkefnisins. Alex er sjávarútvegs- og líftæknifræðingur að mennt og flutti með fjölskyldu sína til Eyja fyrir einu og hálfu ári síðan. Eyjafréttir kíktu í heimsókn í verksmiðjuna í Kleifum úti á Eiði og náðu tali af Alex.
Hluti búnaðarins í Kleifum.
Hlutu styrk upp á 21 milljón
„Þetta byrjaði þannig að Hólmfríður Sveinsdóttir, sem er yfir Háskólanum á Hólum í dag, sótti um styrk hjá Matvælasjóði og voru Langa og fleiri fyrirtæki með í styrkumsókninni“ segir Alex Freyr en styrkurinn nam 21 milljón króna. Styrkurinn átti að að sjá til þess að leita leiða til þess að búa til vatnsrofin prótín, eða prótínhýdrólýsöt, úr verðminni afurðum eins og til dæmis feitum hryggjum. „Við fengum svo þennan styrk en þegar farið var að skoða markaðinn almennilega þá var hann ekkert svo frábær. Hinsvegar þá var markaðurinn fyrir kollagen, sem er í rauninni vatnsrofið prótín líka, mun sterkari og því var tekin einhvers konar ákvörðun í verkefninu um að fókusa meira á það og í kjölfarið því fjárfest í þessum búnaði sem við erum að setja upp.“
„Langa er búin að vera að vinna að því að auka framleiðslu sína á aukaafurðum hér í þessu húsnæði síðan það var byggt árið 2015 en það hefur aldrei farið neitt af stað fyrr en núna. Við erum búin að vera á fullu að gera prófanir á kollageni frá Kína í sambærilegri verksmiðju og erum að kaupa og bera það saman við vinsæl kollagen hérna heima eins og Feel Iceland. Það hefur komið mjög vel út bæði út frá ferskleikasjónarmiði og hreinleika. Síðan hefur þetta verið mikið um samskipti við þá sem eru að framleiða búnaðinn og að skoða hráefnismarkaðinn og svo framvegis.“
„Við höfum meðal annars fengið hjálp frá Þekkingarsetrinu og Sýni ehf. með rannsóknir og höfum verið að vinna með aðila út í Hollandi sem hefur verið að gera tilraunir fyrir okkur. Fyrirtæki út í Danmörku hefur verið að vinna markaðshlutann með okkur og síðan eru ákveðnir aðilar sem eru mögulega að koma inn í þetta núna eða aðeins seinna. Við erum búin að fá mikla hjálp frá DVG hér við hliðina á okkur, Leo Seafood, Miðstöðinni og Skipalyftunni. Jón Steinar hjá Braggabílum hefur líka hjálpað okkur mikið þannig að það er hellingur af fólki í samfélaginu sem hefur „pitch-að inn“ að einhverju leyti.“
Eins og bruggverksmiðja
„Þetta hefur gengið nokkuð vel hjá okkur. Samskipti hafa þó reynst frekar erfið en þetta er búnaður frá Kína og við erum með vinnumenn þaðan sem tala litla ensku, þannig að það hefur verið stærsta áskorunin“ en Alex segist ekki ennþá vera búinn að pikka upp kínverskuna og er því duglegur að nota Google Translate til að eiga í samskiptum við sína menn. Aðspurður út í búnaðinn segir hann verksmiðjuna svipa til bruggverksmiðju. „Við erum með tanka, síur og þurrkgræjur og svo erum við með ketil sem sér okkur fyrir gufu. Þetta er í rauninni niðurbrot að einhverju leyti á himnum og slíku. Öll fita og föst efni eru skilin í burtu og frekari síun losar okkur meðal annars við mikla lykt, bragð og lit. Síðan erum við með forþurrkun og svo þurrkun.“
Vilja fá roðið í Eyjum
„Við myndum vilja fá svona 300 tonn af roði í mánuði og erum að vonast til þess að fá allt roð hérna frá Eyjum og erum að gera okkur góðar vonir um það“ segir Alex en til að byrja með verður verksmiðjan að vinna úr þorsk-, ýsu- og ufsaroði. „Annars erum við búin að mynda okkur sambönd ofan af landi. Vonandi komumst við sem næst þeirri tölu en það verður svolítið að koma í ljós líka. Ég er mikið búinn að setja mig í samband við frystitogarana sem hafa fæstir hverjir hingað til verið að hirða roð en ættu klárlega að vera að gera það því hægt er að fá fínt verð fyrir það.“
En hvað er kollagen?
„Kollagen er það prótín sem er hvað mest af í líkamanum en framleiðsla þess minnkar mikið eftir 25 ára aldur. Kollagen er skipt í nokkra flokka sem má finna á mismunandi stöðum í líkamanum eins og til dæmis liðum, húð og hári og er nauðsynlegt til að viðhalda góðri heilsu. Kollagen er vatnsrofið prótín sem þýðir að það er formeltanlegt og við brjótum prótínið niður í smærri peptíðkeðjur sem á að gera okkur auðveldara að taka það upp eða melta það. Þetta er ekki ósvipað Unbroken ef einhverjir vita hvað það er. Það er í rauninni bara vöðvaprótín sem er í smærri peptíðkeðjum og á að auka endurheimt og fara strax inn í kerfið.“
Sífellt stækkandi markaður
„Við ætlum að framleiða duft í einhvers konar „bulk“ magni og þá til fyrirtækja. Hugsanlega tuttugu kíló í kassa sem fara þá til heildsala eða framleiðanda fyrst en ekki beint í búðir frá okkur. Auðvitað væri gaman að selja það að mestu leyti hérna innanlands en ég held að það sé ekki raunhæft. Það er ekki nógu stór markaður fyrir það þannig að við komum til með að þurfa að búa til einhver góð sambönd erlendis. Markaðurinn er sífellt stækkandi og hefur stækkað um 10% á ári síðastliðin fimm til sex ár og spár sýna áframhaldandi vöxt.“
„Ég er búinn að læra alveg fáránlega mikið sem er búið að vera mjög spennandi. Tækifærin í þessu eru alveg ótrúlega mörg og þess vegna væri mjög gaman að vera með eitthvað vörumerki hérna í Eyjum. Það þyrfti náttúrulega kannski smá fjárfestingu í það en ef að við myndum ná því þá værum við að koma með sérhæfðari störf til Eyja til dæmis í markaðsmálum og einhverju svoleiðis sem gæti verið spennandi. Þá störf sem eru ekkert endilega hér í dag. Þó við séum að auka virði að sleppa því að selja roð og selja kollagen í staðinn þá erum við samt að tapa á hinni keðjunni með því að vera ekki að selja inn á neytendamarkað, þannig að það gæti verið gaman að ná að búa til eitthvað svoleiðis.“
Í gangi allan sólarhringinn
„Við erum að vonast til þess að þetta gangi nógu vel til þess að geta keyrt verksmiðjuna allan sólarhringinn alla daga vikunnar og þá væru 15-20 starfsmenn í verksmiðjunni. Það er þó erfitt að segja til núna því við vitum ekki hvað við fáum af hráefni eða verð afurðarinnar. En nú erum við komin með búnað sem getur gert tilraunir með fleiri aukaafurðir en fiskroð og því erum við að opna ákveðnar dyr fyrir ennþá meira af tækifærum hér í Eyjum.“
Kæliturn fyrir vatn.
Eyjar ættu að vera nýsköpunarmiðstöð í sjávarútvegi
„Ég hef sagt það einhvern tímann áður að Vestmannaeyjar ættu að vera einhvers konar nýsköpunarmiðstöð í sjávarútvegi sem hefur kannski verið ábótavant hingað til, ekki bara hérna í Eyjum heldur líka á Íslandi. Það eru alveg mörg tækifæri í því. Við erum langt á eftir mörgum þjóðum í þessu þannig það getur orðið gífurleg virðisaukning á Íslandi í sjávarútvegi ef að þetta heldur áfram. Plús náttúrulega ef að laxeldið fer á fullt þá eru ákveðnar afurðir þar sem væri hægt að nýta.”
Greinina má einnig lesa í 16. tbl Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst