Í viðtalinu kemur m.a. fram og er reyndar fyrirsögn viðtalsins “Við getum ekki tekið lögregluna í gíslingu”. Þá segir „háværasta krafa okkar er að lögreglustjórar í landinu samræmi verklag sitt varðandi upplýsingaskyldu. Það er í raun okkar áskorun á innanríkisráðherra.”
Þegar einstaklingur eða hópur manna vill ná fram kröfum sínum þá er gíslataka stundum aðferð sem beitt er. Við gíslatöku gengur alls ekki að taka þann gíslingu sem getur orðið við kröfum gíslatökumanna. Gíslataka þykir áhrifaríkust þegar að gíslarnir sjálfir eru saklausir og liggja sem best við höggi. Sá sem á að verða við kröfum gíslatökumannanna á við þær aðstæður að fyllast samviskubiti eða jafnvel skelfingu og verða við kröfum gíslatökumanna.
Tónlistamönnunum þótti Þjóðhátíð Vestmannaeyja uppfylla vel skilyrði gísla. Ekki bara hefur Þjóðhátíðin ekkert með verklag lögreglu að gera heldur hefur hátíðin í gegnum tíðina verið helsti vettvangur tónlistamanna á Íslandi, bæði vinsælla sem og þeirra sem hafa verið að stíga sín fyrstu spor í anddyri heimsfrægðar. Tónlistarmennirnir tóku því samstarfsaðila sinn í gíslingu og kröfust þess að lögreglustjórar í landinu samræmdu verklag sitt varðandi upplýsingaskyldu, skoruðu síðan á Innanríkisráðherra að beita sér í málinu.
Niðurstaðan virðist síðan verða sú að gíslinn, Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum, væntanlega heltekinn af Stokkhólmsheilkenni, lýsti því yfir að gíslinn og gíslatökumennirnir myndu stofna saman starfshóp til næstu 5 ára. Til að blessa samstarfið var einn aðili sérstaklega tilnefndur þ.e. Stígamót. Þau samtök eru hins vegar þekkt fyrir baráttu sína gegn kúgun og ofbeldi. Á heimasíðu samtakanna má m.a. lesa „Við lítum því svo á að þeir sem beita ofbeldinu noti það sem stjórntæki til þess að ná valdi yfir fórnarlambi sínu.” Ekkert hefur hins vegar heyrst til lögreglustjóranna eða Innanríkisráðherra en reyndar hafði komið áður fram hjá Ríkislögreglustjóra að æskilegt væri að koma á samræmdu verklagi í upplýsingagjöf til fjölmiðla. Ríkissaksóknari tók undir þau orð.
Eftir stendur að Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum var tekin í gíslingu af hópi tónlistarmanna enda er ekki hægt að taka lögregluna gíslingu. Þjóðhátíðin var beitt kúgun og ofbeldi í því skyni að berjast gegn kúgun og ofbeldi að mati gíslatökumanna. Sagan dæmir menn hins vegar ekki eftir því hvert markmið þeirra er heldur hvaða aðferðum beitt er til að ná fram því markmiði. Kannski er í lagi að beita ofbeldi og kúgun þegar sá sem beitir slíku telur tilgang sinn góðan og er geðþekkur tónlistarmaður. Eða kannski eru menn bara kjánar?
Tryggvi Már Sæmundsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst