Um ellefuleytið í morgun fékk lögreglan í Vestmannaeyjum tilkynningu um vinnuslys um borð í uppsjávarskipinu Álsey VE. Starfsmaður löndunarþjónustu hafði misst meðvitund í lest skipsins vegna súrefnisskorts. Samstarfsmenn hans og skipverjar um borð í Álsey brugðust hins vegar skjótt við, komu til mannsins með súrefni og komst hann fljótlega aftur til meðvitundar. Lögregla, sjúkraflutningamenn og slökkvilið var kallað á staðinn og var maðurinn hífður upp úr lestinni og í land.