Það voru margir eftirminnilegir strákar að æfa og spila með mér í yngri flokkum ÍBV á þessum árum, Orri Guðjohnsen var öflugur, mjög góður í fótbolta og við Sæli Sveins og Leifur Leifs vorum valdir í unglingalandsliðið. Við vorum alltaf með gott lið, vorum sterkir strákar og við spiluðum upp fyrir okkur um flokka. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegu viðtali Ásmundar Friðrikssonar við Ásgeir Sigurvinsson í Eyjafréttum sem koma út í dag.
Árið 1970 vorum við Íslandsmeistarar og bikarmeistarar í 2. flokki og Íslandsmeistarar í 3. og 4. flokki. Á meðan pabba naut við var hann mín stóra stoð og stytta í boltanum og lífinu öllu. Hann var rosalega áhugasamur og þegar leit illa út með flug þegar eitthvað liðið var að koma til Eyja fór pabbi oft niður á Flugfélag til að segja þeim að þokan væri farin og það væri orðið fært.
Pabbi tók þetta allt svakalega nærri sér og þegar við töpuðum eitt vorið fyrsta leiknum á móti Breiðablik fór allt á hliðina. Svo varð það auðvitað frægt þegar pabbi mætti á frambyggðum Bedfordinum á leikina hjá mér. Þá lagði hann bílnum klesst upp við grindverkið á malarvellinum og sat í bíl stjórasætinu og hallaði sér fram yfir stýrið.
Þaðan steytti pabbi hnefann og öskraði á dómarann og þegar allt var um koll að keyra í stýrishúsinu á Bedfordinum lá pabbi á flautunni, eða gaf stefnu ljós eitthvað út í loftið. Pabbi lifði sig inn í leikinn og var frábær pabbi, hugsaði vel um okkur strákana og var alltaf með Kiwi túpuna og skóburstann á lofti, en pabbi burstaði alltaf fótboltaskóna mína, sem voru glansandi flottir við útihurðina þegar ég fór í hvern leik.
Sjá nánar í Eyjafréttum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst