Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á sér langa hefð. Nú á seinni árum er þjóðhátíðin orðin einn af stærstu viðburðum landsins hvað skemmtunarhaldi viðkemur og er orðin stærsta útitónlistarhátíð landsins. Í gegnum árin hafa allskonar hefðir þróast og orðið til á þjóðhátíð, sumar gamlar hafa horfið á meðan aðrar hafa haldið velli og nýjar orðið til. Þjóðhátíð skiptir íslenskt tónlistarfólk gríðarleg miklu máli. Þjóðhátíð er eins og landburður; allir bátar fullir fyrir íslenskt tónlistarfólk og fullyrði ég að fáir hafa gert jafnvel við íslenskt tónlistarfólk og stjórn þjóðhátíðar hverju sinni.