Í ályktunum sem Sjómannafélagið Jötunn og Félag vélstjóra og málmtæknimanna í Vestmannaeyjum sendu frá sér vegna sölunnar á Berg-Hugin til Síldarvinnslunnar á Norðfirði er harmað að fyrirtækjum í Vestmannaeyjum var ekki boðið að bjóða í fyrirtækið. Endurspeglar það mikla reiði Eyjamanna sem segja að með því hafi Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri og einn af stærstu eigendum fyrirtækisins, brugðist Vestmannaeyjum. Auk þess er hann að rjúfa áratuga hefð útgerðarmanna í Vestmannaeyjum um að halda kvótanum í heimabyggð.