Goslokahátíðin er hátíð sem Vestmannaeyingar geta verið stoltir af. Hún er tákn magnaðrar sögu sem er einsdæmi í íslensku samfélagi og þó víðar væri leitað. Með Goslokahátíðinni hyllum við þá yfirnáttúrulegu sigra sem hér voru unnir í uppbyggingu og endurheimt byggðar. Þessi saga bindur alla Eyjamenn saman sterkum böndum, hvort sem þeir hafi upplifað gosið sjálfir eða ekki. Goslokahátíðin er því hátíðin okkar og hún verður ekki til nema með samstilltu átaki þeirra sem að henni koma.