Eitt af því sem ég hef lært á mínum stutta ferli sem stjórnmálamaður og gefið hefur mér mest er að samskipti og samræða eru lykilatriði í að byggja upp gott samfélag. Ég var og er ekkert öðruvísi en annað fólk með sterkar skoðanir og meiningar, sem ég tel oftar en ekki að séu þær einu réttu. Lengi fram eftir mínu lífi var ég róttækur og reif kjaft (geri stundum enn) og taldi að svart væri hvítt og hvítt væri svart og hélt því fram að þeir sem ekki aðhylltust mín sjónarmið og skoðanir væru nú bara skrítnir.