Karlalið ÍBV er komið með bakið upp að vegg og verður að vinna Val á útivelli í kvöld, ætli liðið sér að eiga möguleika á að komast í úrslit Íslandsmótsins. Liðin eigast við í kvöld klukkan 19:45 en vinni Valur, er tímabilinu lokið hjá Eyjamönnum. Valsmenn höfðu betur eftir framlengingu í dramatískum leik í Eyjum á sunnudag þar sem sigurinn gat dottið hvoru megin sem var og náðu þar með forystu í rimmu liðanna, 2:1. Vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Ríkissjónvarpinu.
Kvennalið félaganna eigast við klukkan 17:45. Staðan í rimmu liðanna er jöfn 1:1 en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit Íslandsmótsins. Vinni ÍBV í kvöld, er liðið komið í góða stöðu því næsti leikur liðanna er á fimmtudaginn í Eyjum. Leikurinn verður í beinni útsendingu á íþróttarás Ríkissjónvarpsins.
Sighvatur Jónsson setti saman skemmtilegt myndband af stemmningunni úr leikjum liðanna á sunnudaginn og má sjá myndbandið hér að neðan.
Handboltastemmning ÍBV-Valur úrslitakeppni from Sigva Media on Vimeo.