Eyjamenn og Akureyri gerðu annað jafnteflið á stuttum tíma í kvöld þegar liðin skoruðu 25 mörk hvort á Akureyri. ÍBV komst aldrei yfir í leiknum og jafnaði metin þegar einungis ein sekúnda var eftir af leiknum.
Eyjamenn voru að elta allan leikinn og virtust oft vera búnir að missa Akureyri of langt frá sér. Kolbeinn Aron Arnarson var í marki ÍBV í fjarveru Stephen Nielsen en Kolbeinn átti frábæran leik. Hann varði átján skot og þar af tvö vítaköst. Eyjamenn klúðruðu þremur vítaköstum og má segja að það hafi farið með leikinn.
�?egar 30 sekúndur voru eftir var Akureyri í sókn en þá fékk Elliði Snær Viðarsson, sem er mikið ljúfmenni, að líta rauða spjaldið. Allt trylltist á varamannabekkjum liðanna þar sem heimamenn voru ósáttir með Elliða og virðast Eyjamenn hafa verið ósáttir við dóminn.
Eftir það voru fimmtán sekúndur eftir en þá fiskaði Hákon Daði Styrmisson ruðning sem gaf Eyjamönnum von. ÍBV átti aukakast þegar fimm sekúndur voru eftir en boltinn var þá gefinn á Einar Sverrisson sem skoraði gullfallegt mark á síðustu sekúndunni.
Kári Kristján Kristjánsson var góður í liði ÍBV en hann skoraði sjö mörk, þar af fjögur úr vítum, auk þess fiskaði hann tvö önnur vítaköst. Theodór Sigurbjörnsson skoraði einnig sjö mörk. �?á átti Nökkvi Dan Elliðason mjög góðan leik en hann skoraði þrjú mörk og fiskaði þrjú vítaköst.