Hjartabilun er ástand sem skapast þegar hjartavöðvinn hefur ekki getu til að dæla nægu blóði um líkamann. Skerðing á blóðflæði veldur einkennum eins og t.d andþyngslum, þreytu og minnkuðu úthaldi. Einstaklingar með hjartabilun eru stór sjúklingahópur, en talið er að 10-20% 70-80 ára fólks séu með hjartabilun. Göngudeild Hjartabilunar hefur verið starfrækt frá árinu 2004 á Landspítala, og hefur verið í samstarfi við Heimaþjónustu Reykjavíkur þar sem hefur verið unnið gott starf við að meðhöndla skjólstæðinga sem glíma við hjartabilun og hefur það samstarf gengið undir heitinu Hjartabilunarverkefnið. Nú hefur heimahjúkrun Heilsugæslunnar á Selfossi einnig hafið samstarf við Göngudeild Hjartabilunar og munu hjúkrunarfræðingar heimahjúkrunar þjónusta skjólstæðinga í umdæmi Heilsugæslunnar. Umdæmið nær yfir Árborgarsvæðið, Grafning og Flóahrepp. Aðal áherslur Hjartabilunarverkefnisins er að auka þjónustu skjólstæðinga með hjartabilun í heimahúsi, draga úr innlögnum á bráðamóttökur og á legudeildir, bæta líðan og auka lífsgæði, byggja upp traust og gott öryggisnet. En til þess að þjónustan skili árangri þarf að vera góð samvinna á milli einstaklings og þjónustuaðila, einstaklingurinn þarf að vera meðvitaður um sinn sjúkdóm, þekkja einkenni hans, þiggja stuðning til þess að takast á við breyttan lífsstíl, hafa stuðning frá fjölskyldu og öðlast færni til þess að takast á við breyttar aðstæður. Tíðni heimsókna til skjólstæðinga í Hjartabilunarverkefninu, fer eftir ástandi skjólstæðinga og reynt er að mæta þörf eftir bestu getu. Unnið er eftir stöðluðum fyrirmælum frá Göngudeild Hjartabilunar. Einkenni og ástand sjúklings eru metin og lyf og lyfjagjöf eru ákvörðuð í samstarfi við göngudeildina og lækna HSU. Einnig er veitt fræðsla um sjúkdóm, sjúkdómsástand og eru viðbrögð við versnun kennd.
�?að er von okkar að þetta samstarf við Landspítalann auki gæði þjónustu okkar í heimahjúkrun hér í heimabyggð.
f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Bryndís Erlingsdóttir
Hjúkrunarfræðingur á Heilsugæslunni á Selfossi