Þetta var nálægt aldamótum. Ég gekk sem í leiðslu væri inn í rútuna á planinu við skólann. Þrátt fyrir gríðarlega eftirvæntingu var ég líka svolítið stressaður. Feiminn jafnvel.
Ég kom mér fyrir í sæti við gluggann, því að framundan var ekki aðeins 90 mínútna rútuferð heldur einnig mikilvægur undirbúningur. Loka-undirbúningur! Ég var að fara að sjá hetjurnar mínar og með Discman í annarri og diskana í hinni mátti ekkert fara úrskeiðis í undirbúningnum. Heddfónin mín voru tvö lítil stykki, eitt fyrir hvort eyra. Ekkert þráðlaust kjaftæði. Eftir smá stund kom bekkjarsystir mín og spurði hvort hún mætti hlusta með mér. Ég tók annað stykkið og leyfði henni að hlusta á meðan ég hlustaði með hinu stykkinu og hélt svo fyrir annað eyrað vegna galsans og tilhlökkunarinnar í rútunni. Ég var að fara að sjá hetjurnar mínar. Hetjurnar Val og Írisi. Ég var að fara á ball með Buttercup! Þetta var fyrsta ballið mitt með aldamótabandi.
Árið 2009 kom út sorpritið 100 bestu plötur Íslandssögunnar. Höfundar bókarinnar eru Jónatan Garðarsson og Arnar Eggert Thoroddsen. Ég fékk bókina í jólagjöf og var mjög spenntur. Ég byrjaði að blaða í gegnum hana og las mér til skemmtunar um alls konar plötur og hljómsveitir. Uppsetningin frábær og textinn snarpur og aðgengilegur – viskufullur jafnvel. En fordómar höfundanna gagnvart ákveðinni tónlist gerði þessa bók að engu fyrir mér. Hún varð fals. Höfundum tókst að láta persónulegar skoðanir algjörlega hlaupa með sig í gönur og var ekki ein einasta plata frá hinum svokölluðu aldamótaböndum í bókinni. Ekki Eins og þú með Landi og sonum. Ekki Nákvæmlega með Skítamóral, nú eða samnefnda platan, og ekki Allt sem ég sé með Írafári sem seldist í bílförmum. Né aðrar sem hefðu getað gert tilkall. Ekkert. Ég sé þá höfunda fyrir mér halla sér aftur í stólum sínum vitandi um sölutölur og vinsældir, líklega íklæddir nett skítugum hljómsveitabolum, og segja: „Þetta er ekki tónlist,“ áður en hlegið var með tilgerð. En sá hlær best sem síðast hlær.
Unglingsárin mín fóru í aldamótaböndin af miklum móð. Þau voru dugleg að koma austur og spila á böllum og þar munaði sérstaklega um framhaldsskólana og Neistaflug. Ég var ekki orðinn gamall þegar ég hafði haldið böll með flestum þessum böndum og farið á ball með þeim öllum – nokkrum sinnum. Alltaf var talað um sveitaböll, hvort sem þau voru í félagsheimilum þorpanna eða hreinlega úti í sveit. Síðan komu líka önnur bönd sem höfðu náð inn smellum eða gátu sér gott orð fyrir að vera frábær ábreiðubönd. Alltaf var gaman og alltaf var stuð. Aldamótasenuna teikuðu svo eldri hljómsveitir og var ekki síður stuð á böllum með þeim. Sálin, Nýdönsk o.s.frv. Persónulega fannst mér nú alltaf skemmtilegast á böllum með Skítamóral og er það uppáhalds hljómsveitin mín. Ég fékk oft bágt fyrir, því Metallica og KoRn áttu að vera betri bönd en mér finnst þau bara ekki næstum jafn skemmtileg. Hitta ekki á sömu taugar.
Talað er um að tískan fari í hringi. Aldamótin liðu undir lok og hljómsveitir hennar máttu muna fífil sinn fegurri þegar liðið var á fyrsta áratug þessarar aldar. Sveitaballið var búið. Við tóku alls konar stefnur og straumar í tónlist og auðvitað voru alls konar stefnur og straumar líka þegar aldamótaböndin voru upp á sitt besta. En tískan hefur farið hringinn og sturlaður fjöldi fólks flykkist nú á aldamótatónleika í hvert sinn sem þeir eru haldnir. Þau Jónsi, Einar Ágúst, Hreimur, Beggi, Gunni, Magni, Íris, Valur og Birgitta trylla líðinn með slögurum sem mörgum bregður við að hugsa til hversu gamlir eru orðnir. Spurning hvernig þeim Arnari Eggerti og Jónatan líður með að fletta í gegnum fordómafullt sorprit sitt núna, hugsandi jafnvel; hvaða band er þetta aftur sem mér fannst svo frábært? Ætla síðan jafnvel að kaupa sér miða á aldamótatónleika en nei, karlinn minn. Uppselt. Sá hlær best sem síðast hlær.
Aldamótatónleikarnir fá fólk til að hugsa um gamla tíma. Finna nostalgíu. Langa á ball. Það eru ekki margar ballhljómsveitir starfandi í dag sem eiga lög sem fólk þekkir en ég vona að fleiri taki til starfa af gömlu góðu. Ég skora á ungt tónlistarfólk að semja balltónlist og reyna að ná í gegn með lögum sem gætu orðið hittarar. Nú er allt að fara af stað; allar árshátíðir, brúðkaup, árgangamót, þorrablót, sjómannaböll, bæjarhátíðir o.s.frv. o.s.frv. og er staðreyndin algerlega sú að það vantar ballhljómsveitir sem fólk veit hverjar eru. Reglulega fæ ég tölvupósta frá hljómsveitum sem heita Bílabón eða Allt í suður eða hvað það er. Markmið þessara hljómsveita er oft að ná sér í vinnu og geta spilað á þeim árshátíðum sem bókast. Þau kunna Final Countdown, 500 Miles, Sódóma og Farin. Það er gott og blessað. En að setja markið hærra og skella sér í lagasmíðar? Þau bönd sem ná lögum í gegn núna munu skera sig út og hafa nóg að gera. Ég skal bóka ykkur. Sveitaballið er að byrja aftur!
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst