Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá ÍBV sækir Skagamenn heim í dag í Pepsi-deild karla. Leikurinn hefst klukkan 17:00 en Skagamenn eru í 6. sæti með 16 stig, tveimur stigum og þremur sætum ofar en ÍBV.
Hjá ÍBV eru tveir af betri leikmönnum liðsins í leikbanni en þeir Sindri Snær Magnússon og Pablo Punyed taka báðir út leikbann í dag, eftir spjöld í síðasta leik liðsins. Búist er við því að Mees Junior Siers hefji því leik og að Mikkel Maigaard verði færður aftar á völlinn.
Skagamenn hafa verið á þvílíku skriði í síðustu umferðum en þeir hafa sigrað fjóra leiki í röð gegn fjórum af sterkari liðum deildarinnar, KR, Stjörnunni, Breiðablik og Val.
ÍBV hefur ekki safnað mörgum stigum undanfarið en fengu þó stig gegn Íslandsmeisturum FH-inga í síðustu umferð.
Skagamenn og Eyjamenn hafa mæst fimm sinnum á síðustu þremur árum en ÍBV hefur sigrað tvo af þeim leikjum, seinni sigurinn kom fyrr á tímabilinu, í fyrsta leik. �?á sigraði ÍBV með fjögurra marka mun 4-0 í Eyjum.