Síðustu búvörusamningar sem gerðir voru við bændur voru samþykktir á Alþingi Íslendinga 13 september árið 2016. Það voru einungis 19 þingmenn sem greiddu atkvæði með samningnum en 7 voru á móti.
Það voru sem sagt 44 þingmenn, 2/3 þeirra sem sitja á Alþingi sem greiddu samningnum ekki atkvæði, voru á móti, sátu hjá eða voru ekki í þingsal við atkvæðagreiðslur. Ég hef oft vitnað til þessarar atkvæðagreiðslu sem dæmi um lítinn skilning á lækkun kostnaðar við landbúnaðarframleiðslu sem skilar sér í lægra vöruverði til neytenda. Almennur skilningur á stöðu bænda sem mikilvæg stétt til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinna er að hverfar. Með minni stuðningi mun bændastéttin smátt og smátt deyja út. Bændum er greitt fyrir að hætta sauðfjárrækt og snúa sér að öðrum verkefnum. Of margir fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa því miður unnið gegn hagsmunum bænda og þess vegna er staða þeirra margra að verða vonlaus.
Ástæðan fyrir að ég byrja á þessum inngangi er að nú hefur mennta- og menningarmálaráðherra sett fram til kynningar lagafrumvarp sem hefur það að markmiði að greiða niður 25% af ritstjórnarkostnaði einkarekinna fjölmiðla. Búvörusamning við fjölmiðla vildi ég kalla þetta frumvarp. Það felur í sér nákvæmlega það sama og búvörusamningar við bændur nema hvað búvörusamningurinn við fjölmiðla hefur enga fjárhagslegan ábata fyrir neytendur. Stuðningurinn fer beint í vasa útgefandans í nafni eflingar Íslenskrar tungu. Fjölmiðlar í hinum dreifðu byggðum eiga ekki greiðan aðgang að fjölmiðlabúvörusamningnum. Þannig er gert ráð fyrir því að við fjölmiðil sem fær stuðning starfi að minnsta þrír starfsmenn og hann komi út 48 sinnum á ári. Það tryggir að landsbyggðin verður lítið að þvælast fyrir í þessum stuðningi eins og svo oft áður þegar kemur að opinberum stuðningi. Aftur á móti er gert ráð fyrir að skoðunarbræður sem skapa sér vettvang í fjölmiðlun og oft eru nefndir mykjudreifarar verði vel tryggðir og gætu fengið hlutfallslega hæstu framlögin.
Fíllinn í herberginu í þessu máli er Ríkisútvarpið sem fær tæpar 5000 milljónir í ríkisframlög á árinu 2019 en gera má ráð fyrir því að heildartekjur Ríkisútvarpsins verði yfir 7000 milljónir með auglýsinga- og sértekjum. Ég heyrði fjölmiðlakonu segja að ef hennar fyrirtæki fengi sem næmi stuðningi við ríkisútvarpið í einn dag á ári þá væri hennar fyrirtæki í góðum málum. Verðum við ekki betur sett með að deila þessum 5000 milljónum á alla fjölmiðla með sérstökum fjölmiðlabúvörusamningi þannig að allir sætu við sama borð. Þegar því væri náð væri farið að eins og gert er með bændur. Fjölmiðlabúvörusamningurinn ætti þá að lækka ár frá ári þar sem sérstakir fjölmiðlar væru teknir fyrir eins og sauðfjárbændur og þeim fækkað. Þá kæmu tilboð til landsbyggðarfjölmiðla sem væru enn á lífi, um greiðslur í 3-5 ár ef menn hætta að gefa út fréttaefni á landsbyggðinni sem höfuðborgarbúum kemur eðlilega ekkert við.
Þá verður allt svo frábært þegar fjölmiðlarnir hafa tekið yfir búvörusamninginn. Allar landbúnaðarafurðir fluttar inn án nokkurra hafta og við þurfum ekki að kemba hærurnar yfir því að hér verði framleidd heilbrigð vara í sjálfbærum landbúnaði með hreinleika Íslenskrar náttúru sem allar þjóðir öfunda okkur af. Draumur margra fjölmiðla og stjórnmálamanna mun því rætast og sveitir landsins verða ekki svipur hjá sjón. Og það besta af öllu verður að í stað kostnaðar við búvörusamninga kemur kostnaður neytenda vegna umboðsaðila sem þurfa líka sitt og neytendur munu sitja upp með svipað verð og áður. Ég er líka viss um að fleiri þing menn muni styðja fjölmiðalbúvörusamninginn en búvörusamninginn við bændur sem 19 þingmenn greiddu atkvæði 2016.
Nei öllu gríni fylgir einhver alvara. Er fólk virkilega að meina þetta með búvörusamninga á fjölmiðla og óbreytt Rikisútvarp?
Ásmundur Friðriksson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst