„Mæting fór langt fram úr öllum vonum.” segir Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss aðspurður um aðsóknina á opnun sýningar undir yfirskriftinni „Frímerkja- og póstsaga Vestmannaeyja í 100 ár” sem opnaði í gær. Hægt verður að skoða sýninguna fram á sunnudag.
Kári sagði við opnun sýningarinnar að eitt af því sem sé hvað ánæjulegast við að starfa í þessu húsi er að fá tækifæri til að uppgötva ný verðmæti í þeim fjölbreytta safnkosti sem hér er varðveittur.
„Við þekkjum öll hluti eins og ljósmyndasafn Sigurgeirs sem þenur sig með allt að því ógnvænlegri nákvæmni yfir 70 ár af 100 ára sögu Vestmannaeyjabæjar eða hinar heimsfrægu Kötlumyndir Kjartans Guðmundssonar eða fágætisbókasafnið sem Ágúst Einarsson gaf Vestmannaeyjabæ fyrir tveimur árum raunar nákvæmlega uppá dag og starfmenn Árnastofnunar sem heimsóttu safnið í fyrra sögðu mér að væri merkasta fágætisbókasafn landsins utan Reykjavíkur svo maður nefni aðeins fáein dæmi. Svo eru önnur verðmæti sem maður hefur enga þekkingu á og eru því luktur heimur innan safnsins þar til við eignumst hollvin sem hefur jafn viðamikla þekkingu og Guðni Friðrik Gunnarsson og þegar við bættist að hann heimtar að koma og vinna í sjálboðavinnu frá klukkan 6 morgunn eftir morgunn til að klára verkið áður en hann mætir í vinnuna þá verður það einfaldlega ekki boxað út.” sagði Kári Bjarnason.
Guðni Friðrik segir uppistöðuna í sýningunni vera “Átthagasafn “ Guðmundar Ingimundarsonar, sem hann og kona hans Jóhanna M. Guðjónsdóttir frá Hlíðardal færðu bænum að gjöf sumarið 1991 að lokinni Norrænni frímerkjasýningu í Reykjavík. „Í nokkur ár var hægt að skoða safnið í flettirömmum í Safnahúsinu. Vonandi getum við leyft afkomendum okkar að skoða þessa forngripi í framtíðinni. Næsta stig verður kanski að safna snappchöppum, hver veit.” sagði Guðni Friðrik og bætti við að hann með dyggri hjálp Hlyns hafi bætt í safnið, ýmsu sem tengist Goslokahátíðum.
Hann segir að einnig sé að finna merki sem bera myndir frá Eyjum.s.s Þjóðhátíð o.fl. „Ljóstrit úr safni Indriða Pálssonar,sem selt var fyrir nokkru í Svíþjóð, En safn hans var besta safn íslenskra merkja og sárgrætilegt að það skuli hafa verið selt úr landi. Hönnuðum úr Eyjum, Jóa Listó, Ástþórs Jóhannssonar og auðvitað Hlyns eru gerð skil.” segir Guðni Friðrik Gunnarsson.
Hlynur Ólafsson, hönnuður frímerkisins sagði það mikinn heiður að fá að koma og fagna með bæjarbúum á þessum tímamótum. „Í dag fögnum við útgáfu míns nýjast frímerkis sem fjallar um eitt hundrað ára afmæli bæjarins. Við þetta tækifæri var ég beðinn um að kynna það sem ég hef verið að gera í frímekjahönnun á síðustu 25 árum.
Þegar ég flutti frá Eyjum til þess að hefja nám í grafískri hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands þá hvarlaði ekki að mér að það ætti eftir að verða mitt verk næstu 25 árin ásamt öðru að fá að vinna við hönnun frímerkja með öllum þeim ólíku þemum og myndefnum sem þar eru. Þetta starf hefur í gegnum árin orðið til þess að ég hef náð að kynnast alls konar áhugaverðu fólki sem hefur lagt mikið til af þekkingu og upplýsingu, til að gera öll þessi fjölbreyttu frímerki að möguleika því í frímerkjahönnun þarf allt að ver rétt og satt til að standast tímans tönn.”
Hlynur segir Guðna Friðrik Gunnarsson frá Gilsbakka hafa fengið sig til að hanna fyrsta frímerkið þegar hann vann sem starfsmaður markaðsdeildar frímerkjaútgáfu póstsins. „Síðan hef ég hannað yfir 190 frímerki fyrir Póstinn sem sýnd eru á dökku flekunum hér til vinstri. Allt þetta verk er aðeins mögulegt með góðri hjálp vísindamanna, sagnfræðinga og ýmissra listamanna sem stundum hafa lagt til myndefni og annað en þá er helst að nefna Jón Baldur Hlíðberg, Ólaf Pétursson og Jóa okkar Listó.”
Hlynur tilkynnti viðstöddum þessu næst að hann hafi ákveðið að gefa safninu þessa fleka til minningar um þetta tilefni og kom hann á framfæri þökkum til Kára Bjarnasonar fyrir jákvæðni og hjálp við að gera þetta mögulegt.
„Þegar ákveðið var að ég fengi að hanna frímerki fyrir 100 ára afmæli bæjarins þá fór í gang vinna sem kostaði margar prufur og meðal annars þrjár ferðir hingað til að ljósmynda til að ná réttu myndinni sem mér finnst að sýni bæinn á hógværan en samt fallegan hátt þar sem bærinn kúrir í sínu stæði.” sagði Hlynur Ólafsson.
Fleiri myndir frá opnuninni má sjá hér að neðan. Sýningin verður opin í dag, föstudag frá kl. 10-18. Þá er hún opin laugardag og sunnudag kl. 13-16.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst