Það fór nú eins og ég spáði varðandi ráðgjöf Hafró að ýsan var aukin, en að mínu mati hefði mátt auka hana aðeins meira. Þegar maður hins vegar horfir á ráðgjöf Hafró sl. áratug varðandi ýsuna, mætti halda að þetta væri ákveðið með einhvers konar jójói og happ og glapp hvar það stoppar.
Ýsan var hins vegar það eina jákvæða við ráðgjör Hafró í ár að mínu mati. Mjög sérstakt að horfa upp á ráðgjöf upp á liðlega 250 þúsund tonn í þorski og það 36 árum eftir að lagt var af stað með núverandi kvótakerfi sem tilraun sem átti að standa í 3 ár og átti upphaflega að skila jafnaðar afla upp á 500 þúsund tonn af þorski á hverju ári, að þeim tíma liðnum.
Varðandi tillögurnar um lönguna, þá er hún algjörlega óskiljanleg þegar horft er til þess, að nú þegar er búið að veiða 95% af kvótanum og enginn stór línuveiðari lagt á allar löngubleiðurnar suður af Vestmannaeyjum í sumar og í raun og veru hafa verið auglýsingar hjá kvótamiðlurum alveg frá því um áramót eftir löngukvóta og greinilegt að langan er á mikilli uppleið, en bara ekki hjá Hafró.
Varðandi keiluna, þá langar mig að rifja upp umfjöllun mína frá því fyrir nokkuð löngu síðan, en fyrir áratug fannst mér sveiflurnar á keilunni mjög skringilegar og eftir ábendingu, þar sem mér var bent á, að keilan væri ein af þeim tegundum sem ekki voru reiknaðar út miðað við veiðar í svokölluðu togararalli, þá hafði ég samband við Hafró og óskaði eftir að fá að tala við þeirra helsta sérfræðing um keiluna og fékk ég það, en þar fékk ég staðfest að þetta væri rétt, keilan væri ekki miðuð við togararallið, heldur væri fylgst með meðaltal keilu á línulengd hjá Vísis bátunum (en eins og flestir vita, þá fékk Vísir á sínum tíma úthlutað helminginn af löngu og keilu kvótanum á einhvern ótrúlegan hátt).
En spurningin sem mig langaði að leggja fyrir þennan sérfræðing Hafró var þessi:
Ef afurðarverð á keilu er jafn lélegt (eins og í ár) og útgerðin beitir bátunum ekki í keilu, heldur notar keilukvótann til þess að brenna upp í aðrar tegundir, hvernig túlkið þið það?
Og svarið:
Það er einfalt, þá er stofninn einfaldlega hruninn.
Það er svolítið merkilegt að fylgjast með því hvernig þær tegundir sem kvótasettir hafa verið eftir 2000 hafi nánast allar hrunið með kvótasetningu. Á sínum tíma veiddum við yfir 10000 tonn af keilu, nú er verið að tala um kvóta upp á liðlega 2000 tonn. Á sínum tíma veiddum við um 14000 tonn af löngu á hverju ári, nú erum við að tala um kannski 5000 tonn og ef við horfum á kvótasetningar síðustu 5 árin, þ.e.a.s. blálöngu, gulllax, litla karfa og hlýra. Allir hafa þessir stofnar hrunið um leið og búið var að kvótasetja þá, kannski bara eðlilega því til hvers að vera að eltast við tegundir sem eru kannski erfitt að sækja, eða jafnvel hálf verðlausar og því miklu betri að nota aflaheimildirnar í kvóta tilfærslur.
Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með nokkrum ungum mönnum hér í Eyjum sem fengið hafa sér bát frá því í vor og farið af stað í strandveiðarnar, en í Eyjum var met slegið í vor þegar 20 bátar voru skráðir á strandveiðar. Tíðin hefur hins vegar ekki verið neitt sérstök, en sumir þessara ungu manna hafa nú komið og rætt við mig og verið að velta því fyrir sér að fara kannski á línu næsta vetur.
Í sjálfu sér væri bara gaman að því, en ég hef einnig bent mönnum á hversu ofboðslega mikil vinna það er að standa og beita, leigja kvóta og vera í sífelldum eltingarleik í því að hafa eitthvað út úr kvótanum, en miðað við tillögur Hafró fyrir næsta fiskveiðiár, þá er nú líklegast í stöðunni að minn bátur verði bundinn stærsta hluta næsta fiskveiðiárs. Reyndar er ráðherra ekki búinn að samþykkja tillögur Hafró og í raun og veru hljóta allir, sem eitthvað vit hafa á málum að sjá hversu arfa vitlausar þessar tillögur eru og sem dæmi, þá frétti ég það í gær að það væri verið að auka þorskkvótann í Barentshafi um 147000 tonn og að kvótinn þar færi þar með í milljón tonn af þorski. Manni finnst þetta vera nokkuð augljóst að togararall, sem hefur verið lykillinn að tillögum Hafró frá því 1984, hefði alveg eins getað verið frá ´44 miðað við það, hversu miklar breytingar hafa verið í hafinu við Ísland síðustu áratugi. Maður heyrir t.d. af því, að allir fyrðir norður í landi séu fullir af fiski, en ekkert tekið tillit til þess í tillögum Hafró.
Maður heyrir alltaf annað slagið mis gáfulegar auglýsingar frá stjórnmálaflokkum sem reyna að afla sér vinsælda með því að auglýsa eins og t.d. sanngjarnt gjald fyrir auðlingina og svipað, mér finnst þetta allt saman hálfgerð sýndarmennska, en svo ég setji nú á prent eitthvað einu sinni sem mér finnst, þá er besta kvótakerfið sem ég hef starfað í á mínum 33 ára útgerðarferli, þá er það það svokallaða þorskafahámarkskerfi, sem lagt var af upp úr 2000, en í því kerfi gátu minnstu bátarnir veitt frjálst í öllum tegundum nema þorski og þá var hægt að lifa af því að vera trillukarl, en það er það svo sannarlega ekki í dag.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst